10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. 1. kjörbrjefadeildar (Eiríkur Einarsson):

Mjer fanst háttv. þm. Dala. (B. J.) og hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) blanda um of saman því, sem máli skiftir, og því, hvað löglegt er, og hins vegar því, hvað hlutaðeigandi kjördæmi kann að þykja hagkvæmt. Þessu má ekki blanda saman, og það eru þær hálu brautir, sem jeg gat um, ef þingið lætur mál eins og þetta fara eftir stærð eða kjósendafjölda kjördæmisins.

Jeg legg áherslu á það, að hjer voru hinir ólöglegu kjósendur svo margir, að atkvæði þeirra gátu vel ráðið úrslitum kosninganna, og ef kosningar eru teknar gildar, sem þannig eru undir komnar, er fordæmið skapað.

Ef kjörstjórnir væru skipaðar óhlutvöndum mönnum, þá gætu þeir „praktiserað“ það, að lofa mönnum að kjósa, sem ekki hefðu rjett til þess, eða ef tvírætt væri um rjettinn. Jeg segi, ef þeir væru óhlutvandir og kosningar af kappi sóttar. Hjer þarf að draga skýrar línur, en þær verða ekki dregnar í flaustri, og þess vegna ber að fresta málinu.

Jeg skal játa það, að mjer er ekki ljúft að lama lögleg áhrif Reykjavíkur hjer á þingi, og vil jeg ekki frekar en aðrir, að leikur sje að því gerður. Þetta má ekki dragast lengur en þörf krefur, og vil jeg þess vegna skora á væntanlega nefnd að ljúka störfum hið bráðasta.

Um þessa 50 vafaseðla er það að segja, að kjördæmadeildin leit á þá, og var á þeim hjer um bil öllum merkt við einn frambjóðanda. Nefndin athugaði, hver þessi eini væri, og kom þá í ljós, að um 13 höfðu kosið Jón Magnússon og 11 eða 12 Jakob Möller. Þar er mjótt á milli, og hefðu þessir seðlar því ekki ráðið úrslitum. Ellefu eða tólf sagði jeg, af því að einn var rispaður og auðkendur að öðru leyti og því tvímælalaust ógildur.

Það, sem fyrir mjer vakir ekki hvað síst í þessu máli, er samband þingmannanna. Lögfræðinga greinir á um það, hvort kosning beggja sje ekki ógild, ef annars er það. Það er sama kosningin og því sömu gallar á kosningu beggja þm., þótt þeir gætu ekki ráðið úrslitum nema fyrir annan þm. Þetta vil jeg láta athuga, en til þess er frestun nauðsynleg.