20.02.1920
Neðri deild: 8. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Það má líklega telja það vanþakklátt verk að vera til þess hafður að samræma þetta nefndarálit við frv. eins og það var lagt fyrir þingið af stjórninni, en það er auðvitað fram komið fyrir margítrekaðar kröfur kjósenda í Reykjavík um fjölgun þingmanna sinna, og hefir stjórnin orðið við þeim, þótt hún hafi ekki getað gengið eins langt og óskað hefir verið.

Það er rjett að geta þess strax, að þetta frv. gerir ráð fyrir hlutfallskosningu þm. Reykjavíkur, og er það öfugt við þá reglu, er gildir um kosningu annara kjördæmakosinna þm. Nefndin tók lítið til athugunar þetta atriði og hefir heldur ekkert látið uppi álit sitt um það í nefndarálitinu, og þar með sýnt, að hún í vissum tilfellum getur fallist á þessa aðferð. Það er tala þm., sem mestu máli skiftir, og það atriði gat hún ekki orðið algerlega ásátt um; stjórnin fer fram á, að tölu þm. Reykjavíkur sje fjölgað um 4, en niðurstaðan í nefndinni varð sú, að fjölga þeim að eins um 2; ástæðurnar eru að nokkru leyti settar fram í nefndarálitinu, og eru þær í fyrsta lagi bygðar á því, að ef þm. Reykjavíkur yrði fjölgað um 4, þá yrði ýmsum kjördæmum landsins gert rangt til, og í öðru lagi áleit meiri hluti nefndarinnar, að aðstaða kjósenda hjer væri miklu betri en í nokkru öðru kjördæmi landsins, til þess að hafa áhrif á aðgerðir þingsins, og virtist nefndinni það atriði mjög mikils vert. Þá má og nefna það, að alt öðruvísi horfir við um kosningar hjer en t. d. í sveitakjördæmum. Hjer kemur það ekki fyrir, að kjósendur geti ekki neytt kosningarrjettar síns vegna illveðurs eða ófærðar, en af þessu leiðir, að hjer geta þeir jafnan komist að, sem mest hafa fylgi, en það getur brugðist í sveitakjördæmum.

Enn fremur má telja þá ástæðu, að Reykjavík mun eiga fleiri málsvara hjer á þingi en þm. kjördæmisins. Um þetta verður náttúrlega ekkert fullyrt, og það er kann ske hægt að segja, að í raun og veru sje þetta veik ástæða, en þó er það svo, að þm. búsettir hjer og vanir bæjarlífinu munu fremur hallast að því, að misbjóða ekki kröfum þess bæjar, sem þeir eru búsettir í, enda eru þess líka dæmin, að margir þm., hjer búsettir, hafa látið sig miklu skifta kröfur og þarfir bæjarins. Að vísu lít jeg ekki svo á þetta, að allir þm. sjeu ekki skyldir til að líta á þarfir höfuðbæjar síns, því að vitanlegt er það, að hver þm., sem ræður yfir skoðun sinni, getur og verður að láta hana falla saman við rjettmætar þarfir og kröfur þessa bæjar, og þótt nokkrum kunni að þykja misbrestur verða á þessu, að því er suma hv. þm. snertir, þá er það þó svo, að þm. búsettir hjer eru löngum mjög nærri því að fylgja þeim málum, sem Reykjavík vill.

Loks er svo það, að þar sem þingið er háð hjer í Reykjavík, hafa kjósendur hjer ein hlunnindi, sem aðrir kjósendur landsins hafa ekki. Það er, að þeir geta beitt áhrifum sínum til að koma fram málum, sem þeir hafa áhuga á, og hvað sem segja má að öðru leyti um þetta, er það þó víst, að þetta verður á margan hátt til að búa í haginn fyrir Reykjavík.

Brtt. þær, sem nefndin hefir komið með, eru fáar. Fyrsta brtt. fer í þá átt, að breyta orðalagi 1. gr. um, að þm. Reykjavíkur skuli eiga sæti í Nd. Nefndin leit svo á, að þetta ákvæði mætti misskilja svo, að þm. Reykjavíkur mætti ekki kjósa til Ed. Nefndin hefir leyft sjer að breyta orðalaginu svo, að þetta gæti ekki orðið misskilið.

Önnur brtt. nefndarinnar er við 11. gr. Hún er þess efnis, að við greinina bætist ný málsgrein, svo hljóðandi: „Ef um uppkosningu eða aukakosningu á einum þingmanni er að ræða, skal um kosningu hans fara að á sama hátt sem um kosningu þingmanna í sjerstökum kjördæmum.“ Þetta leiðir af hlutfallskosningarákvæðinu. Að vísu komst til tals í nefndinni, að hugsanlegt væri að ákveða hjer varamann, eins og við landskjörið. En ekki sýnist vera neitt frekara rjettlæti í því að ákveða, að varaþingmenn skuli vera fyrir Reykjavíkurkjördæmi, heldur en önnur kjördæmi úti um land, sökum þess, að kjördæmi úti um land eiga oft erfiðara með að ná fulltrúa inn á þingið, ef þau missa fulltrúa sinn af einhverjum ástæðum milli kosninga, heldur en Reykjavík. Nefndin lagði það því til, að uppkosning í Reykjavík færi fram á sama hátt og venjulegar óhlutbundnar kosningar úti um land. En nefndin væntir þess, að stjórnin fari að vinna að endurskoðun kjördæmaskipunarinnar og þá einnig ákvæðinu um varaþingmenn. Jeg leyfi mjer að láta þessa skoðun í ljós fyrir hönd nefndarinnar. En jafnframt dylst mjer ekki, að þegar að endurskoðuninni rekur, verður stjórnin að leita skýrslna hjá hjeraðsstjórnum úti um land.

Um brtt. hv. þm. Dala. (B J.), á þgskj. 36, er það að segja, að nefndin hefir ekki tekið neina afstöðu til þeirra. En jeg skal lýsa yfir því fyrir mína hönd, að jeg álít brtt. þessar óþarfar. Annars hafa nefndarmenn óbundnar hendur í þessu efni.

Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar.