20.02.1920
Neðri deild: 8. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Sveinn Björnsson:

Enda þótt mig greini á við samnefndarmenn mína um eitt aðalatriði þessa frv., er jeg þeim þó þakklátur fyrir það, að þeir greiddu götu þess. Ágreiningsatriði mitt er að eins þingmannatalan.

Forsætisráðh. (J. M.) gat þess, að stjórnin hefði ekki verið óskift um tölu þingmannanna. Hann kvaðst hafa viljað hafa þá 6, en hinir ráðherrarnir hefðu verið því mótfallnir.

Jeg get ekki stilt mig um að fara nokkrum orðum um þetta atriði, og jafnvel þótt mjer hafi ekki tekist að sannfæra nefndarmennina um ástæðuna til fjölgunarinnar, er jeg þó ekki úrkula vonar um, að deildin hlýði á rök mín.

Eins og sjá má á nál., eru tilfærðar ýmsar ástæður fyrir því, að nefndin hefir ekki viljað fara lengra í þessu efni. Sumar þessara ástæðna komu fram í ræðu háttv. frsm. (Þór. J.).

Fyrsta ástæðan er sú, að þar sem Reykjavík fái einn þingmann fyrir hverja 1377 kjósendur, ef þm. verði fjölgað um tvo, þá sje þó eitt kjördæmi ver sett, en betur sjeu sett 5 kjördæmi. Jeg bið nú hv. þm. að gefa gaum að athugasemdunum, sem fylgja frv. stjórnarinnar. Tala kjósenda í Reykjavík er 5511, og eftir því ætti einn þm. að koma á hverja 918 kjósendur, ef bætt er við 4 í Reykjavík. Það er því auðsætt, að engin sanngirni er í því að láta Reykjavík ekki hafa fleiri en 2 þm. í viðbót. En menn segjast nú geta bent á eitt kjördæmi utan Reykjavíkur, sem sje líka illa sett. Það er svo sem auðvitað, að ef fylsta rjettlæti ætti að fá í þessum efnum, yrði sama kjósendatala að standa bak við hvern þm. En þessi röksemd sýnir að eins það, að ástæða er til þess að sýna einnig fleiri kjördæmum sanngirni, en er engin ástæða fyrir því að afskifta Reykjavík.

Önnur ástæðan er sú, að ýmsir fulltrúar annara kjördæma eigi heima í Reykjavík, og á það að draga úr nauðsyninni á fjölgun fulltrúa fyrir kjördæmið. Þetta virðist mjer ekki vera nein rök gegn þm.-fjölguninni. Þó að þm. eigi heima í Reykjavík, er ekki þar með sagt, að hann hafi hagsmuni hennar fyrir augum. Ef hann tekur einhvern sjerstakan landshluta út úr heildinni, til þess að gæta hagsmuna hans öðrum fremur, mundi það auðvitað verða kjördæmi hans. Og jeg hygg, að reynslan hafi sýnt það, að þm. annara kjördæma, sem heima eiga í Reykjavík, meti meir kjördæmi sín en Reykjavík. Hins vegar er það mjög óheppilegt, að þm. skoði sig þm. einhvers sjerstaks landshluta, en ekki alls landsins. Þeir eiga að skoða sig sem þm. allrar þjóðarheildarinnar. Jeg vil árjetta það, að reynslan gefur enga ástæðu til að óttast það, að þm., sem eiga heima í Reykjavík, haldi hagsmunum hennar fram yfir hagsmuni annara kjördæma.

Þá er það þriðja ástæðan, að Reykjavík standi öðrum kjördæmum betur að vígi til þess að neyta kosningarrjettar síns og hafa áhrif á störf þingsins. Satt er það, að svo getur litið út í fljótu bragði. En fullgild ástæða er þetta þó ekki, því fjöldi manna hjer í bænum stundar atvinnu utan takmarka kjördæmisins, annaðhvort á sjó eða í öðrum landshlutum, og geta þeir því ekki notað kosningarrjett sinn. Það eru engar skýrslur til um aðstöðu manna til að neyta þessa rjettar. En jeg leyfi mjer að staðhæfa það, að mikill vafi sje á, að ástæðurnar sjeu betri í þessu efni í Reykjavík heldur en annarsstaðar á landinu. Og jeg hygg, að kosningarskýrslur sýni það, að í Reykjavík kjósi ekki eins margir af hundraði sem í sumum öðrum kjördæmum.

Um aðstöðu Reykvíkinga til að hafa áhrif á þingið er það að segja, að kjósendur í Reykjavík munu yfirleitt nota sjer þá aðstöðu lítið; og auk þess er engin ástæða til að halda, að þm. láti Reykvíkinga hafa áhrif á sig nema til góðs. Það kemur ekki til greina að beita almenning kjósenda nokkru ranglæti, þó að til sjeu menn hjer í bænum, sem eru lagnir á að tala við þm. Jeg veit, að til eru menn utan Reykjavíkur sömu hæfileikum gæddir, og hafa þeir öll tök á að beita þeim, t. d. í síma, svo þetta er ekkert sjerstakt fyrir Reykjavík.

Það hefir stundum verið nefnt, að ástæða væri til að gera vissa þekkingu á stjórnmálum að skilyrði fyrir kosningarrjetti. Ef nokkuð væri upp úr því leggjandi, að menn eigi góða aðstöðu hjer að fylgjast með störfum þingsins, þá ætti, frá þessu sjónarmiði, þessi ástæða frekar að mæla með því, að kjósendum Reykjavíkur yrði ekki sýnt minna rjettlæti en öðrum. Jeg held, að jeg hafi tekið rjett eftir, að hv. frsm. (Þór. J.) mintist á það, að hjer væri saman kominn hópur af þinghæfum mönnum, og Reykjavík hefði því úr betri hóp að velja, að kjósa sjer góða fulltrúa, en önnur kjördæmi. Nær verður ekki komist að því ákjósanlegasta en að koma sem bestum mönnum að.

Jeg ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta að sinni, en vil taka það fram, og því verður ekki mótmælt með rökum, að þar sem 1 þm. ætti, að meðaltali, að vera fyrir hverja 800 kjósendur á landinu, þá er það ekki rjett, að í Reykjavík sje 1 þm. fyrir hverja 1400 kjósendur. Það er ekki einu sinni rjett frá því sjónarmiði, að þeir sjeu ekki fleiri en 6, því þá verður 1 þm. fyrir hverja 918 kjósendur, og því síst of langt farið að fara fram á 6 þm. Því minna rjettlæti væri, ef Reykjavík fengi ekki nema 5 þm. Þá væri 1 þm. á hverja 1100 kjósendur.

Jeg gleymdi að taka það fram, að ein ástæða nefndarinnar er sú, að fleiri kjördæmi verði fyrir ranglæti. Í því sambandi er rjett hugsun í brtt. hv. þm. Dala. (B. J.), að bæta úr kjördæmaskiftingu yfirleitt. En það er umsvifameira og erfiðara en þetta mál. Það er hægast hjer, því hjer þarf að eins að breyta tölu þm., en ekki kjördæmamörkum. Að lokum vil jeg benda á, að Reykjavík hefir í mörg ár búið við það ranglæti að hafa færri þm. hlutfallslega en önnur kjördæmi. Og þó að þm. verði fjölgað upp í 6, þá býst jeg við, að með vexti Reykjavíkur verði Reykjavík brátt verst sett, þó örfá kjördæmi verði ver sett í bili.

Hv. meðnefndarmenn mínir hafa komist að þeirri niðurstöðu, að „sanngirni“ mæli með því að fjölga þm. að eins um 2. Jeg hefi sýnt fram á, að rjettlætið er mín megin, og ef á að kjósa á milli sanngirni og rjettlætis, þá efast jeg ekki um það, hvernig atkvæði eiga að falla.