20.02.1920
Neðri deild: 8. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Sveinn Ólafsson:

Jeg finn mjer skylt að gera grein fyrir atkvæði mínu; ekki síst þess vegna, að jeg treystist hvorki að fylgja frv. stjórnarinnar eða till. nefndarinnar, nje heldur brtt. hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.). Þetta mun þykja nokkuð hastarleg afstaða til málsins, og þess vegna vil jeg reyna að færa nokkrar ástæður fyrir henni. Í athugasemdum við stjórnarfrv. er tekið fram, að Reykjavík sje miklum ójöfnuði beitt um fulltrúaval til þings. Jeg fellst ekki á, að þetta sje rjett. Það er svo mikið djúp staðfest milli skoðunar minnar og hæstv. stjórnar um þetta, að jeg álít, að ójöfnuðurinn sje á hina hliðina, og ýms önnur kjördæmi sjeu í þessu efni lakar sett en Reykjavík, þrátt fyrir það, þótt Reykjavík kjósi færri fulltrúa í hlutfalli við kjósendatölu en önnur kjördæmi landsins. Á líku máli virðist einnig háttv. stjórnarskrárnefnd, þótt minni áherslu leggi hún á það en jeg.

Hún vill mæta óskum Reykvíkinga á miðri leið og fjölga þm. um 2, í stað 4.

Að jeg tel Reykjavík hafa betri aðstöðu til að koma sínum málum fram en önnur kjördæmi og því fullsæmda af þeim 2 þm., sem nú eru, kemur til af því tvennu, að þingið er háð hjer og verður sífeldlega fyrir áhrifum atkvæðamanna hjer, bænum í hag, og í öðru lagi vegna þess, að hjer hafa jafnan verið og eru búsettir margir þm. annara kjördæma eða þá landsheildarinnar, en oft má líta á þessa menn eins og viðaukafulltrúa fyrir Reykjavík.

Að sjálfsögðu eru skoðanir skiftar um það, hvort áhrif bæjarins á þingið sjeu fremur góð eða vond, — jeg fyrir mitt leyti tel þau fremur spilla en bæta, — en hvað sem um það verður álitið, þá eru þau ætíð málefnum Reykjavíkur í hag.

Það er alkunna, að sífeldlega er mikill hluti þm. búsettur hjer í Reykjavík. Í þetta skifti eru þeir 15 af 40, eða 3/8 þingsins. Á síðasta þingi voru þeir 13. Það er ekki til neins að hafa á móti því, að menn verða alment fyrir áhrifum af samvistarmönnum sínum, og gildir það hjer eins og annarstaðar. Enginn efi leikur á því, að margir þm. fjarlægra kjördæma, sem hjer búa, og annars eru mjög áhugasamir um sín kjördæmi, verða fyrir þeim áhrifum við búsetuna hjer, að þeir engu síður bera hagsmuni Reykjavíkur fyrir brjósti en sinna kjördæma. Skoðanir þeirra litast af umhverfinu, eins og reyndar er eðlilegt, og er það engum til ámælis sagt, en efunarlaust er það, að þessi litun er Reykjavík í hag. Á þetta hefir oftsinnis verið bent, bæði í ræðu og riti, og það mjög ljóslega, en hjer skal jeg ekki fjölyrða um það frekar.

Jeg kannast að vísu við það, að Reykjavík hefir færri fulltrúa í hlutfalli við höfðatölu kjósenda en önnur kjördæmi landsins, en jeg lít svo á, að slík höfðatala sje ekki einasta undirstaðan um þetta.

Margt annað getur til greina komið, og hefi jeg nefnt sumt af því. Jeg mundi þó geta felt mig við fjölgun þm. fyrir Reykjavík, og það jafnvel eftir kjósendafjölda, ef þeim tveimur aðalskilyrðum væri fullnægt, að há Alþingi utan Reykjavíkur að jafnaði, og að lögfest væri með kosningalögum sú skipun, að allir kjördæmakosnir þingmenn skyldu búsettir í sínum kjördæmum, og þegar málum er þann veg komið, þá er jeg reiðubúinn að styðja þingmannafjölgun Reykjavíkur með mínu atkvæði.

Á það er rjett að benda, að ef leita á að fylsta rjettlæti um fulltrúaval kjördæmanna, þá verður, eins og háttv. þm Dala. (B. J.) hefir sjeð og athugað, víðar við að koma en í Reykjavík. Öll hafa þau ástæðu til að kvarta, að einu undanteknu, Seyðisfjarðarkaupstað, sem hefir fulltrúa fyrir 287 kjósendur og er því margfaldur í roðinu við flest önnur kjördæmi. En ef miða ætti kröfurnar fyrir önnur kjördæmi við þetta, þá yrðu þingmenn alls 110. Svo langt mun þó enginn vilja fara, og jafnvel háttv. þm. Dala. (B. J.), sem ekki lætur sjer alt í augum vaxa, ljet staðar numið við 4 tylftir og vildi þá auðvitað ætla Reykjavík hálfa.

Annars vil jeg leyfa mjer að taka það fram, til skýringar því, sem jeg sagði áðan, að þegar háttv. þm. Dala. (B. J.) vill leita að rjettlætinu og fer fram á að bæta þm. við fyrir Hafnarfjörð, Stokkseyri og Eyrarbakka, Snæfellsness- og Hnappadalssýslu og Barðastrandarsýslu, þá gengur hann alveg fram hjá Suður-Þingeyjarsýslu, sem auðvitað átti að koma fyrst á eftir Reykjavík, þegar miðað er við kjósendafjölda. Af þessu verður eigi annað sjeð en að vog rjettlætisins sje úr jafnvægi komin og samhygð hans við Suður-Þingeyjarsýslu sje minni en við hin kjördæmin. (B. J.: Sagðir þú nokkuð um mig?). Að eins lof.

Eitt atriði var það í ræðu háttv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.), sem mjer virðist athugavert. Hann gat þess, að sumstaðar erlendis væru ákveðin þekkingarskilyrði heimtuð til þess að fá að njóta kosningarrjettar og virtist svo sem hann áliti að ef þvílík skilyrði væru hjer tekin í lög þá ætti Reykjavík fyllri rjett til þingmannafjölgunar en önnur kjördæmi, líklega vegna þekkingaryfirburða kjósenda í Reykjavík.

Um þessa gullhamra vil jeg láta háttv þm. (Sv. B.) einan. Jeg fyrir mitt leyti lít hjer á öðrum augum og álít að almenningi hjer í Reykjavík standi alls eigi öðrum landsmönnum framar að þekkingu og heilbrigði í skoðunum. Að hjer eru saman safnaðir margir mentamenn, svo sem kennaralið við háskólann og aðrar mentastofnanir kemur ekki til álita í þessu sambandi.