20.02.1920
Neðri deild: 8. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Sveinn Björnsson:

Jeg lofa því að vera stuttorður, og ætla að reyna að halda það.

Hv. frsm. (Þór. J.) sagði, að langar umræður hefðu enga þýðingu í þessu máli, því flestir mundu ráðnir í því, hvernig þeir greiddu atkvæði. Þó svo kunni að vera, þá tel jeg mjer samt skylt að veita þm. með fáum orðum upplýsingar um það, á hverju jeg byggi skoðun mína. Jeg hefi altaf litið svo á, að hjer væru saman komnir sanngjarnir menn, sem gjarnan vildu heyra rök með og móti og taka það til athugunar, sem þeir hefðu ekki heyrt áður. Jeg vænti þess, að það þyki ekki ósvinna, þó jeg reyni að færa rök fyrir máli mínu, og það jafnvel þó einstaka menn hafi þegar ákveðið atkv. sitt.

Mjer virtist hv. frsm. (Þór. J.) leggja aðaláhersluna á þau áhrif, sem Reykvíkingar geti haft á þingið, og það leit svo út, sem hann áliti þetta nóg til þess að rjettlæta það, að Reykjavík fengi ekki þeirri kröfu sinni fullnægt, að hafa þingmenn í rjettu hlutfalli við kjósendafjölda. Jeg hefi áður talað um áhrif Reykjavíkur og bent á það, að þau geta ekki orðið á móti henni í þessu máli. Og þó að þau yrðu talin draga úr þörfinni á fjölgun þingmanna, þá get jeg ekki viðurkent þau sem rjettan mælikvarða í þessu efni. Jeg held fast við það, að kjósendatalan er aðalatriðið. Það er bygt á almennum kosningarrjetti, og eftir því „principi“ eiga allir kjósendur að hafa jafnan rjett til að hafa áhrif á skipun þingsins. Þetta verður að eins með því móti að miða fulltrúatöluna við kjósendafjöldann. Þessu verður ekki altaf komið við, en því nær sem það kemst, því betra. Það er erfitt að mæla á móti því, sem rjettlæti og sanngirni segja best, og það þarf sterk rök, sterkari rök en hjer hafa komið fram, til að hverfa frá þessum grundvelli. Þegar við þetta bætist, að önnur rök styðja mál mitt, þá er ekki síður ástæða til að samþykkja brtt. á þgskj. 39.

Það hefir verið minst á þessi rök bæði af mjer og öðrum, og læt jeg mjer því nægja að þessu sinni að benda á tvö. Annað er það, hvað atvinnuvegirnir eru margbreyttir, hitt er það, að það er viðurkent, að Reykjavík greiðir meira í ríkissjóð en nokkurt annað kjördæmi, svo miklu meira, að hin kjördæmin komast ekki í námunda við það. Það væri því ekki til of mikils mælst, að þingið sýndi Reykjavík fult rjettlæti, en þó eru Reykvíkingar svo hæverskir að fara ekki fyllilega fram á það.

Á móti fjölgun hefir verið mest færð sú ástæða, að möguleiki sje á því, að íbúar bæjarins kynnu að geta haft áhrif á þingið. Þessi ástæða verður að orðast svo, því þó það eigi sjer stað, að menn smitist af skoðunum annara, þá álít jeg, að Alþingi sje svo skipað, að það sje einfært um að mynda sjer skoðun.

Þá get jeg ekki komist hjá að minnast á atriði, sem þeir töluðu um, hv. frsm. (Þór. J.) og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Það er þekkingaratriðið. Það var ranghermt hjá hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að jeg hefði talið Reykvíkinga þar fremri; hann hefir eflaust ekki heyrt það, sem jeg sagði nógu greinilega. Jeg talaði ekkert um það, að Reykvíkingar hefðu meiri þekkingu en kjósendur í öðrum landshlutum. Mjer datt það ekki í hug. Jeg álít það yfirleitt óviðfeldið að tala um þekkingarmismun kjósenda í ýmsum kjördæmum. En orð mín, sem lutu að þessu, voru beint sprottin af þeirri ástæðu nefndarinnar, að Reykvíkingar hefðu betra tækifæri til að fylgjast með störfum þingsins. Jeg sagði, að ef þessi ástæða væri nokkurs virði, þá leiddi af því, að Reykvíkingar ættu að hafa meiri þekkingu á landsmálum, og það gæti ekki rjettlætt, að þeir væru ójöfnuði beittir. En jeg tók það fram, að jeg bygði ekki á þessari ástæðu nefndarinnar; jeg var einmitt að andæfa henni. Jeg held enn þá fast við það, að ósannað sje, að Reykvíkingar hafi betri aðstöðu til kosninga. Menn verða að gæta að því, að mikill hluti bæjarmanna lifir á sjó mestan tíma ársins og er oft ekki heima þegar kosningar fara fram. Þeir hafa því síst betri skilyrði en aðrir til að beita kosningarrjetti sínum. Að vísu er þeim veittur sá möguleiki í lögum, að kjósa fyrir kjördag eða annarsstaðar, en þó geta þeir ekki kosið fyr en framboðsfrestur er útrunninn, og heimildin er enn þá svo ung, að fæstir kunna að notfæra sjer hana.

Annars get jeg ekki annað en látið í ljós undrun mína yfir öllum þeim öfugmælum, sem komu fram í ræðu hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Jeg hefi bent á, og jeg held að það sje alment viðurkent, að Reykjavík er ójöfnuði beitt, þar sem hún hefir mörgum sinnum færri þm. en hún ætti að hafa að rjettri hlutfallstölu kjósenda. En hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) slær því fram, að ájöfnuðurinn sje á hina hliðina! Vitanlega er ómögulegt að rökstyðja aðra eins firru, enda reyndi hv. þm. (Sv. Ó.) ekki til þess. Eitthvað mintist hann þó á höfðatölu, en það er búið að margræða það atriði, svo jeg ætla ekki að fara frekar út í það. Þá talaði hann um áhrif Reykvíkinga á þm. og taldi þau óheppileg. Jeg hygg, að hv. þm. vanti öll rök fyrir þessari staðhæfingu. (G. Sv.: Hann veit ef til vill dæmi). Þó hv. þm. (Sv. Ó.) hafi ef til vill reynt eitthvað þess háttar, þá má hann ekki dæma alla eftir sjer, og jeg vona, að þm. sjeu þannig yfirleitt, að þeir láti ekki hafa óheppileg áhrif á sig. En engin regla er án undantekningar, og nú hefir hv. þm. (Sv. Ó.) viljað gera undantekninguna að reglu.

Jeg veit ekki, hvort hv. 1. þm. S -M. (Sv. Ó.) var að henda gaman að sjálfum sjer eða hv. deild, þegar hann þóttist vera með fjölguninni samt sem áður, en með skilyrðum. Hann ætlaði að vera með henni þegar búið væri að flytja þingið úr Reykjavík, og þegar búið væri að setja það ákvæði í lög, að þm. yrðu að vera búsettir í því kjördæmi, sem þeir væru fulltrúar fyrir. Það er óvíst, hvort þetta verður nokkurn tíma, og allar líkur á, að það verði aldrei; vonandi verður hv. þm. (Sv. Ó.) a. m. k. kominn af þingi þá. En þetta minnir mig á sögu af vissu dýri, sem bauð storkinum heim til sín og setti fyrir hann rjettina í flatri skál. Allir vita, hvaða ánægju storkurinn hafði af því.

Jeg ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta mál, en enda með því að minnast á atriði úr ræðu háttv. þm. S.-Þ. (P. J.). Hann kallaði þetta bráðabirgðaráðstöfun, og væri hún þess vegna viðunandi. En því má ekki gera bráðabirgðaráðstöfun sæmilega úr garði, þótt bráðabirgðaráðstöfun væri? Hvað á þessi kurteisi við rjettlætið að þýða, að vilja altaf halda sjer í hæfilegri fjarlægð? Hjer er auðveldast að bæta úr, hjer þarf engu að breyta nema tölum, ekki kjördæmatakmörkum eða öðru slíku. Jeg hafði hugsað mjer, að þessi breyting gæti fullnægt til nokkurra ára, en það er eins og hugsun og útreikningur manna gangi aftur á bak. Þeir eru ánægðir, ef breytingin er þannig, að hún hefði fullnægt fyrir nokkrum árum.

Um leið og jeg sest niður vil jeg geta þess, að jeg kann ekki við, að ómótmælanlega rjettmætar kröfur sjeu kallaðar gyllingar.