20.02.1920
Neðri deild: 8. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Jakob Möller:

Jeg stóð aðallega upp til þess að ganga eftir loforði frá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) um að verða mjer sammála að lokum, og vænti jeg þess, að hann greiði atkv. með frv. óbreyttu. (Sv. Ó.: Jeg kannast ekki við það loforð). Mjer skildist, sem við værum sammála, eða að það vantaði örlítið á, að við yrðum það. Annars er það leitt, hvað þessu máli er hraðað mjög, því að hver veit, nema við gætum þá orðið sammála um það að lokum, hvað ólíklega sem á horfist um það í svipinn. En það þýðir víst ekki að fara fram á frestun, jafnvel þó að von væri um það.

Jeg vil biðja menn að misskilja ekki orð mín áðan, um að umræðugrundvöllurinn væri ekki alls kostar heppilegur, á þann veg, að jeg teldi hæstv. stjórn hafa verið að gefa þinginu undir fótinn að verða á móti frv., af ásettu ráði. En stjórnin hefir einskorðað meðmæli sín með frv. við kjósendafjölda Reykjavíkur, saman borið við önnur kjördæmi, og látið prenta með því yfirlit yfir kjósendafjölda í öllum kjördæmum landsins, þar sem greinilega kemur fram, að sum einmenningskjördæmin hafa nálega helmingi hærri kjósendatölu heldur en hjer kæmi á þingmann hvern, ef þm. bæjarins yrðu 6. Í þetta hljóta menn auðvitað að reka augun, þegar þeir athuga skýrsluna, enda hefir það komið áþreifanlega fram í umræðunum. En þó að jeg vilji taka fult tillit til kjósendafjölda, þá vil jeg ekki láta hann einan ráða kjördæmaskipun landsins, enda væri það ómögulegt að skifta landinu í jöfn kjördæmi eftir fólksfjölda. Afskifti manna af landsmálum hljóta altaf að fara meira eða minna eftir stjett þeirra og atvinnugrein, og því má ekki láta það liggja algerlega í láginni. Og jeg lít svo á, að hver atvinnuflokkur, ekki síður en einhver ákveðinn fjöldi kjósenda, eigi heimtingu á að hafa nægilega marga fulltrúa á þingi í hlutfalli við aðra. Nú er því svo varið, að allir aðrir atvinnuvegir eru ofurliði bornir á þingi af landbúnaðinum, og mælir það sterklega með því, að Reykjavík verði látin njóta rjettar síns eftir kjósendafjölda að fullu, án tillits til þess, þó að einstök landbúnaðarkjördæmi sjeu að tiltölu fólksfleiri.

Jeg held, að einhverjir háttv. þm. hafi misskilið það, sem jeg sagði um rjett „öreigalýðsins“, og einhver fann að ósamræmi í því, að halda fram rjetti þess lýðs, og jafnframt að vitna í skattgjald Reykvíkinga til stuðnings kröfunni um þingmannafjölgun. En sá háttv. þm. hefir ekki athugað það, að „öreigarnir“ greiða líka sín gjöld í landssjóðinn, eins og aðrir.

Enn hefir háttv. þm. orðið tíðrætt um það, hve margir þm. annara kjördæma sjeu búsettir í Reykjavík. Það má annars merkilegt heita, að þessir háttv. þm. skuli ekki af þeirri ástæðu fara fram á það, að teknir verði af Reykvíkingum þessir tveir þm., sem þeir hafa, í stað þess að bæta við! En Reykvíkingar geta ekki ætlast til þess, að önnur kjördæmi kjósi þingmenn fyrir þá, og þeir vilja miklu heldur fá að kjósa þessa „búsettu“ þingmenn sjálfir, eða þá þeirra, sem þeir vilja á þingi hafa, heldur en að láta önnur kjördæmi gera það.

Að lokum vík jeg þá aftur orðum mínum til háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Af því að honum er svo ant um smælingjana, og hann telur sjer heiður að því, þá finn jeg ástæðu til að brýna það fyrir honum enn á ný, að ef þm. bæjarins verður ekki fjölgað eins og frv. stjórnarinnar fer fram á, þá eru miklar líkur til þess, að einmitt rjettur „smælingjanna“ í þessum bæ verði algerlega fyrir borð borinn. Jeg þykist vita, að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) játi rjettlætiskröfu verkamannaflokksins til að hafa fulltrúa á þingi, og það því fremur, sem hjer er ekki að eins um að ræða óskir nokkurra manna í Reykjavík, heldur fjölmenns flokks víðs vegar um land.