23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Gunnar Sigurðsson:

Jeg álít, að það þýði ekki að vera að þvæla þetta mál lengur með umræðum. En jeg vildi samt láta skoðun mína í ljós í þessu máli, áður en frv. er afgreitt hjeðan úr deildinni, og þá sjerstaklega vegna þess, að jeg hefi að nokkru leyti sjerstæða skoðun á þessu máli.

Það er sanngjarnt að fjölga þingmönnum fyrir Reykjavík, en það er einnig sanngjarnt að fjölga þeim annarsstaðar á landinu, eins og t. d. háttv. þm. Dala. (B. J.) benti á með brtt., er hann kom fram með við aðra umræðu.

Það er því nauðsynlegt að endurskoða alla kjördæmaskiftinguna, og getur Reykjavík því vel beðið eftir, að það verði gert. Enda býst jeg við, að það sje kjósendum í Reykjavík ekki á móti skapi, því flestir munu óánægðir með að fá að eins 4 þingmenn, en búast við fleirum við væntanlega rjettláta kjördæmaskiftingu. Það mælir einnig með því að láta þetta bíða fyrst um sinn, að kjördæmaskiftingin mundi miklu fyr verða framkvæmd, ef Reykjavík fengi enga þingmannafjölgun nú. Það er augljóst, að kjördæmaskipunin, eins og hún er, er nú víða hvar mjög ranglát, og þarf því að breyta henni sem fyrst. Tökum til dæmis Hafnarfjörð. Eins og sakir standa, mun mega telja, að hann ráði úrslitum um bæði þingmannssætin í Kjósar- og Gullbringusýslu. Jafnvægi og sanngirni fengist með því að gera Hafnarfjörð að sjerstöku kjördæmi, og sanngjarnt mundi einnig að skifta Kjósar- og Gullbringusýslu í tvö kjördæmi. Líku máli er að gegna um Árnessýslu. Öll sanngirni mælir með, að sú sýsla fái 3 þingmenn og þá einn fyrir Eyrarbakka og Stokkseyri.

Jeg álít, að það sje nauðsynlegt, til að koma meiru jafnvægi og samræmi á meðal atvinnuveganna, að láta stærstu sjávarplássin fá sína þingmenn.

Það hefir komið ýmislegt fram í þessum umræðum, sem jeg get ekki fallist á, t. d. það, sem sagt hefir verið um þingmenn kjördæma utan af landi, búsetta í Reykjavík, að þeir drægju taum Reykjavíkurbúa. Jeg hygg þetta eigi vera rjett sem meginreglu; þvert á móti finst mjer ástæða til að ætla, að þeir muni venjulega vera varkárari þegar um hagsmuni Reykjavíkur er að ræða. (Sv. B.: Heyr!). Að minsta kosti er mjer hlýrra til míns kjördæmis, minnar sveitar, þegar jeg er þaðan fjarverandi, en ella.