23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Jakob Möller:

Jeg vona, að háttv. deild fari ekki að orðum hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) um það, að samþykkja brtt. hans um að fresta framkvæmd þessara væntanlegu laga um þingmannakosning í Reykjavík. Mjer finst það ærið nóg, ef hv. deild, eins og hann, viðurkennir það fullum fetum, að Reykjavík eigi rjett á að fá 6 þm., en lætur hana svo ekki fá nema 4, þó ekki verði farið að stela af bænum tveim atkv. næstu 3 þingin. En ef hv. þm. (Sv. Ó.) ber svo mjög fyrir brjósti hag minni hlutans í bænum, sem hann lætur, þá hefði hann átt að minnast þess, sem jeg sagði um mál þetta við síðustu umræðu, á annan hátt og bera fram tillögu um, að þingmenn bæjarins yrðu 6.

Mig furðar á framkomu hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), því jeg hefi heyrt það ábyggilega eftir honum haft, að Reykjavík ætti rjett á að fá 6 þingmenn, eða að minsta kosti 4. Raunar heyrði jeg þennan sama hv. þm. segja á fyrsta umræðufundinum, sem hann talaði á, að hann gæti verið óhlutdrægur í því máli, sem þá var til umræðu, og má af því ráða, að hann geti ekki verið óhlutdrægur í öllum málum, og í þessu máli mun hann af einhverjum ástæðum ekki geta verið það. En það er algerlega ástæðulaust að láta Reykjavík bíða eftir rjettmætri fjölgun þingmanna þangað til ný kjördæmaskipun er komin á, því að hvernig svo sem verður farið með kjördæmaskiftinguna við endurskoðun, þá getur það engin áhrif haft á Reykjavík, með því að henni verður aldrei skift eftir landbúnaði og sjávarútvegi, nje nokkur hluti hennar lagður undir önnur kjördæmi. Hv. þm. er gagnslaust að vera að finna upp slíkar átyllur til að afsaka sig fyrir samvisku sinni og öllum óhlutdrægum mönnum, og væri sæmra að horfast í augu við sjálfa sig og sannleikann.

Um aðalástæðu hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) fyrir brtt. hans, þá sem sje, að þessir 2 menn, sem yrðu kosnir til viðbótar, gætu ruglað þá flokkaskiftingu, sem hann segir að nú sje verið að festa með nýrri stjórnarskipun, er það að segja, að ef sú festa er ekki meiri en svo, að ekki þyrfti annað til að raska henni, þá virðist ekki miklu fyrir að fara. Og að minsta kosti verð jeg að efast um, að það varði svo miklu, þótt hún raskaðist eitthvað, að betra væri að láta Reykjavík bíða 3 þing eftir fullnægingu þessa hæfilega rjettlætis, sem þingið virðist nú tilleiðanlegt til að skamta.