10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

Rannsókn kjörbréfa

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hafði ekki ætlað að nota mjer þá tilviljun, að jeg er forsætisráðherra og hefi því leyfi til að tala hjer. En ræða hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) gaf mjer tilefni til að standa upp, því jeg get ekki látið vera að átelja þau meiðandi ummæli, sem hann hafði um þá kjósendur Reykjavíkur, sem kært hafa kosninguna. Hann kallaði þá örgustu og ófyrirleitnustu fylgismenn mína. (G. Sv.: Öruggustu og ef til vill ófyrirleitnustu). Mjer hefir þá misheyrst, en þó hv. þm. (G. Sv.) hafi að eins sagt þetta, þá eru það móðgandi ummæli, sem jeg verð að mótmæla. Mjer þykir óþarfi að blanda persónulegum árásum inn í umræðurnar; það á að tala um mál, en ekki menn.