28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Sveinn Björnsson:

Það hafa mörg orð verið töluð um þetta mál við aðra umr., og gild rök hafa verið færð fyrir rjettmæti kröfu Reykjavíkur um að fá 5 eða 6 þingmenn. Jeg ætla að reyna að forðast að rifja upp eins mikið af þessum umr. og jeg kemst hjá. Háttv. þm. muna eflaust rökin og taka eflaust tillit til þeirra, eftir því sem þeim er unt, skoðana sinna vegna.

Það hefir komið til orða á mörgum undanförnum þingum, að Reykjavík fengi fleiri þingmenn, og fáir háttv. þm. hafa gerst svo djarfir, að mótmæla því, að Reykjavík hefði rjett til þess, enda segir kjósendafjöldi, skifting atvinnuvega, gjöld Reykjavíkur í landssjóð, og það, að hún er höfuðborg landsins, svo til, að ekki er um að villast. Síðasta þing gerði ráð fyrir þessari fjölgun. Það setti í stjórnarskrána ákvæði um það, að kjósa mætti hlutfallskosningu í Reykjavík. Þetta er stjórnskipulegt loforð, og jeg vona, að þeir háttv. þm., sem sátu hjer í fyrra, ætli ekki að brjóta það, þótt það hafi heyrst á einum þm. eða svo, en hann hefir vonandi engin áhrif í þessu máli, enda gat hann ekki fært nein rök fyrir fullyrðingum sínum. Háttv. þm. ætla að reyna að halda þetta loforð, en þeir tylla svo tæpt, sem verða má. Þeir vita, að hlutfallskosningar geta ekki farið fram um færri en 2, og ætla þá að láta sitja við það minsta, sem hægt er að fjölga um.

Jeg vona, að mönnum skiljist það, að umr. snúast ekki um það, hvort eigi að fjölga. Það er viðurkent. Um það er deilt, hvað menn vilja komast nálægt rjettlætinu. Fráfarandi stjórn hikaði ekki við að hafa það sæmilegt; hún hikaði ekki við að leggja til, að bætt yrði við 4. Hæstv. forsætisráðh. (J. M.), sem þá var og nú er, heldur fast við þetta atriði. Hann hefir notið mests trausts þingsins til að fara með stjórn landsins, og það er einkennilegt, að þeir menn, sem treysta honum svo vel um það mikilvæga starf, skuli ekki virða óskir hans meira en raun ber vitni um í þessu efni. Hann lýsti því yfir, að hann legði áherslu á stjórnarfrv., en þessari deild þóknaðist að fara eins skamt og hugsanlegt var.

Málið fór upp til háttv. Ed., og henni þótti of skamt farið. Hún breytti tölunni í 5, hefir líklegast þótt rjettast að hafa þá 6, en viljað rjetta út höndina til samkomulags. Málinu er þá þannig komið. Hjá fjölgun verður ekki komist, og nú er um tvent að velja fyrir þessa deild, annaðhvort að halda áfram að þrjóskast við rökum og rjettlæti og stíga í sama sporið, eins langt frá því, sem rjett er, og hún getur komist, eða taka í útrjetta hönd hv. Ed.

Það ætti að vera óþarfi að benda á það, að stjórnskipulegt hlutverk Ed. er að halda aftur af, er að sporna við því, að Nd. gangi of langt. Deildin er líka gætin; það rjetta væri 6, en hún leggur til 5. Það má ekki líta á það í þessu sambandi, þó Nd. hafi verið svo langt frá því, sem henni bar að vera. Eðlilegt hefði verið, að hún hefði lagt með fjölgun upp í 6 þingmenn, og er þá afstaða Ed. eins og búast má við af gætnari deildinni. Mjer finst Nd. mega þakka hv. Ed. fyrir, að hún hefir gefið Nd. þetta tækifæri, og ætti hún ekki að láta það ganga sjer úr greipum, en taka í höndina.

Á frv. hefir ekki orðið önnur breyting í hv. Ed. en að einni tölu hefir verið breytt, og svo gerð breyting á tölu þm. í deildunum. Um þá breytingu tala jeg seinna, en hina hefi jeg talað um; það er samkomulagsbreyting, og finst mjer sjálfsagt, að deildin fallist á hana.

Þetta kemst nærri rjettlæti, að þingmannatalan sje 5, og með því mundu margra ára kröfur þagna. Jeg hefi tekið eftir því, að margir hafa litið svo á, að 2 þm. væri svo lítil úrbót, að vjer værum litlu bættari eftir. Hv. Ed hefir líka komið rjettilega auga á það, að þetta væri alveg ófullnægjandi. Það hefir komið hjer til tals, að hlutfallskosningin væri til þess að gæta rjettar minni hlutans. En nú vita þeir, sem hlutfallskosningum eru kunnugir, að minni hlutinn hjer er svo staddur, ,að hann fær ekki eins mikil rjettindi, ef þingmannatalan stendur á jafnri tölu. Þeir, sem vilja fjölga þingmönnunum um 3, vilja einmitt taka nægilegt tillit til minni hlutans. Og jeg vænti, að menn taki fult tillit til þessarar úrbótar, sem hv. Ed. hefir fundið.

Jeg skal jafnframt geta þess, að það er ekki alveg þýðingarlaust, hvort kjósendur í Reykjavík hafa ástæðu til þess að vera óánægðir yfir úrslitum þessa máls eða ekki. Eins og vjer vitum, hefir verið töluverður rígur milli kaupstaðarbúa og sveitamanna, og sumir hafa orðið til að ala á honum. Og jeg veit, að synjun þessa máls mundi ekki draga úr honum. Jeg veit, að sumir líta svo á, að mótþróinn gegn þingmannafjölgun Reykjavíkur eigi rót sína að rekja til þessa rígs. Þetta tel jeg mjög óheppilegt. Jeg tel hitt miklu betur farið, að gert sje sem mest að því að uppræta þennan kala. Og þess skal getið, að Reykjavík yrði sannarlega ekki of vel sett, þótt hún hefði 5 þingmenn, því að oss telst svo til, að að eins eitt kjördæmi mundi samt sem áður ver sett.

Mjer þótti leitt, að hv. frsm. (Þór. J.) skyldi láta sjer þau orð um munn fara, að Ed. hefði orðið hjer fyrir áhrifum, sem væru á takmörkum góðs og ills, og sannaðist þar með ástæðan gegn því að fjölga þingmönnunum eftir höfðatölu. Nú vil jeg spyrja: Höfum við þm. Reykjavíkur beitt þessum áhrifum? Jeg neita því. Jeg hefi yfirleitt reynt að gera grein fyrir mínu máli með því að nota málfrelsi mitt hjer í deildinni. Öðrum áhrifum hefi jeg ekki beitt. — En ef þetta er rjett, að hjer sje um svo hættuleg áhrif að ræða, þá væri vitanlega rjettast, að Reykjavík hefði engan fulltrúa á þingi. Hún ætti þá að geta komið öllum sínum málum fram eftir sem áður. En jeg fæ ekki skilið, hvernig hægt er að segja, að það vegi upp á móti þessum áhrifum, hvort fulltrúar Reykjavíkur verða einum fleiri eða færri.

Jeg skal ekki fara langt út í þá sálma, að skipun Ed. færi í bága við 26. gr. stjórnarskrárinnar, ef þessi breyting yrði samþykt. Jeg hygg, að það sje í fullu samræmi við stjórnarskrána, að 15 þingmenn eigi sæti í Ed. Þingmannatölu þessarar deildar má breyta með lögum. Þó að gert sje ráð fyrir, að 6 þingmenn þessarar deildar skuli vera kosnir hlutfallskosningu, þá stjórnast það ákvæði af ákvæðinu, sem á undan er komið. Hjer er alls ekki um stjórnarskrárbrot að ræða. En af því að brtt. hv. þm. Mýra. (P. Þ.) skýrir þetta nánar. þá er rjett að samþykkja hana.

Jeg vænti þess, að hv. þingdeildarmenn láti að eins stjórnast af rólegri athugun er þeir fella úrskurð um þetta mál, en láti ekki stjórnast af tilfinningum nje hinu, að einhverjir kunni að hafa haft áhrif á þá.