28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg er nú búinn að gleyma því, sem jeg ætlaði að segja, en er nú að reyna til að komast fram úr punktum, sem jeg hefi skrifað hjá mjer, en það gengur ekki sem allra best.

Hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) sagði stór orð og sló um sig með blöðum, sem jeg býst við að hafi verið stjórnarskráin sjálf, en ástæður hafði hann engar nje rök fyrir sínu máli. Hann segir, að jeg hafi verið að tala um einhverjar hættur, sem væru yfirvofandi, ef Reykjavík fengi þm. fjölgað. Jeg held, að það stafi af misskilningi hjá honum, hann hefir ekki skilið mig rjett. Hann segir, að kjördæmaskifting hafi altaf farið eftir fólksfjölda, og því „principi‘“ verði einnig haldið í þetta skifti, en svo segir hann, að landinu verði aldrei skift í jöfn kjördæmi, og játar hann þá það, sem jeg hefi haldið fram. Svo koma ýms önnur atriði til greina. Jeg þarf t. d. ekki að hrekja það, þar sem hann talar um, að það sje ofbeldisverk unnið á Reykavík, ef synjað verður um þessa þm.-fjölgun, því jeg hefi svarað því áður. Jeg held, að hver maður í deildinni, sem þekkir málið, verði að játa, að jeg hafi barist á móti málinu vegna sannfæringar minnar og einskis annars. Hv. þm. Reykv. hafa talað hjer á móti mjer, og jeg efast ekki um, að þeir hafi líka talað af sannfæringu.

Hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) gerði það, sem hann gat, til að leiða mönnum fyrir sjónir, hversu mikið rjettlæti það væri að Reykjavík fengi þessa þm.-fjölgun. Svo kom hann með 2 nýjar ástæður, sem áttu að rjettlæta það. Önnur var sú, að frv. hefði tekið breytingum í Ed., en jeg sje ekki, að það sje nein ástæða, og það hrekur ekki það, sem jeg hefi sagt. Hin ástæðan er sú, að hlutfallskosning hafi það í för með sjer, að hún njóti sín ekki til fulls nema tala þm. sje oddatala. Fyrst áttu þm. að vera 6, en nú 5. Þeir mega nú ekki lengur vera 6. (Sv. B.: Ættu eftir fylsta rjettlæti að vera 7). Bágt á jeg með að trúa því, að hinn pólitíski meiri hluti í Reykjavík verði ekki svo kærleiksríkur, að láta minni hlutann komast að við þessar hlutfallskosningar, eða að minsta kosti virðist það í samræmi við kærleiksprjedikanir fulltrúa þeirra, sem meiri hlutinn hefir hjer á að skipa. Þá mintist hann á kjördæmaskiftinguna og ljet það á sjer skiljast, að það væri hans skoðun, að sama rjettlætismálið gilti úti um land og hjer í Reykjavík. En hvað meinar hann með þessu? Hann hefir barið það fram, að hjer ætti að fjölga þm., án þess að taka hið minsta tillit til annara kjördæma. (Sv. B.: Rangfærsla). Það er ekki rangfærsla, og væri sæmra fyrir hv. þm. (Sv. B.) að játa það, að hann hefði farið of langt.

Hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) var að tala um áhrif. En viðvíkjandi því get jeg sagt, að jeg tók að eins hans eigin játningu.

Hv. þm. Dala. (B. J.) mintist á það, að jeg hefði talað um hann í sambandi við málið, og gerði jeg það af því, að hann sagði, að búsettir þm. í Reykjavík hefðu aldrei greitt atkvæði með fjölgun. Í sambandi við það mintist jeg hans.

Menn hljóta að finna það, að erfitt er að forsvara frekari fjölgun á þm. Reykvíkinga við kjósendur úti um land. Menn hljóta að sjá, að það er ekki rjettlætið, sem berst með þeirri fjölgun, heldur ýmsar aðrar hvatir.

Hv. þm. Ak. (M. K.) mintist á stjórnarskrána, — en jeg gat ekki fallist á mál hans og er því alveg ósamþykkur.