28.02.1920
Efri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Sigurður Eggerz:

Háttv. deild er kunn afstaða mín í málinu. Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) gat þess, er hann lagði frv. fram í háttv. Nd., að jeg hefði að eins verið samþykkur, að þm. í Reykjavík væri fjölgað um 2, og atkvgr. mín hjer í deildinni, er málið var tekið til meðferðar, sýndi þá hina sömu afstöðu mína.

Háttv. Nd. samþykti, að þm. skyldu vera 4. Fjölgunin upp í 5 hefir mætt mikilli mótspyrnu í þeirri hv. deild, og samkvæmt frv., eins og það nú kemur í annað sinn frá Nd., er tala þm. 4. Það ætti ekki að setja málið í hættu með því að hækka töluna aftur upp í 5. Mín skoðun er sú, að fyrir ekki stærra land en okkar sje óþarfi að hafa fleiri en 42 þm. Ísland mun eftir mannfjölda hafa tiltölul. miklu fleiri þm. en aðrar þjóðir. Sjálfsagt er aftur að endurskoða kjördæmaskipunina og koma þar að eins miklu rjettlæti og unt er. Annars fæ jeg ekki sjeð, að hægt sje að samþykkja brtt. um fjölgun þingmanna í Reykjavík upp í 5, því eins og hún er orðuð, er hún beint stjórnarskrárbrot. Stjórnarskráin er helgur gripur, sem þingið má ekki vera of nærgöngult við. 26. gr. í nýju stjórnarskránni og 16. og 17. gr. í þeirri gömlu, það er að segja núgildandi, eru nálega samhljóða. Þar stendur: Í neðri deild eiga sæti 26. þm., en 14 í efri deild. Tölum þessum má breyta með lögum.“ Og enn fremur: „Þeir þm. eiga allir sæti í efri deild, sem kosnir eru hlutbundnum kosningum, og auk þeirra 8 þm., er sameinað Alþingi kýs úr flokki þingmanna, sem kosnir eru óhlutbundnum kosningum. Hinir eiga sæti í Nd.“ Það er tekið fram, að það má breyta tölu þingmannanna í báðum deildum, en sje henni breytt í Ed., þá verður að breyta tölu landskjörinna þm., því það er engin heimild til að breyta tölunni 8 í síðasta liðnum.

Jeg vakti ekki eftirtekt á þessu, er samskonar brtt. var samþykt hjer, er málið var síðast í deildinni, en alt fer nú fram í svo miklu flaustri, svo að jeg veitti þessu ekki eftirtekt fyr en eftir þá umr., en þá leiddi jeg strax athygli ýmsra þm. að þessu.

Því miður er enginn úr stjórninni hjer viðstaddur, en jeg skil ekki í, að nokkur ráðherra taki að sjer að flytja lagafrumvarp fyrir konung og beiðast staðfestingar á því, þegar um ótvírætt stjórnarskrárbrot er að ræða.