13.02.1920
Neðri deild: 3. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

9. mál, kosningar til Alþingis

Bjarni Jónsson:

Mjer þótti það undarlegt, að fyrra frv., um þingmannskosningu í Reykjavík, fór hjer í gegnum deildina umræðulaust; en nú vildi jeg í sambandi við þetta frv. gera athugasemd um nauðsynina á þingmannafjölgun í Reykjavík, og eins um þá nauðsyn, að kosið verði hlutfallskosningum. Eins og kunnugt er, þá eru í Reykjavík helst drög til flokkaskiftingar. Að vísu er ekkert til hjer á landi, sem samsvarar stjettaskiftingu annarsstaðar, í stórar og auðugar borgaraættir annars vegar og öreigalýð hins vegar. Hjer er að eins atvinnuskifting, því að flestir eiga ættingja í öllum stjettum. Í Reykjavík ber einna mest á atvinnuskiftingunni, og er þá rjett, að hver stjett hafi fulltrúa á þingi, eftir því, sem kjósendamagn hennar segir til um. En slíkt getur ekki orðið nema kosið sje hlutfallskosningum. Ef annar flokkurinn hefir 2–3 atkv. fram yfir, þá fær hann alla þingmennina, og er það bersýnilegt ranglæti. Það er sama, hver flokkurinn er, ranglætið er það sama, þó minna geri til um þá, sem ekki eru verkamenn, vegna þess, að þeir hafa fulltrúa annarsstaðar frá.

Jeg hefi hugsað mjer, að Alþingi fjölgi þingmönnum Reykjavíkur að minsta kosti um 3, en þó ekki meira en 4, og veltur þá á því, hvort Reykjavík fær 5 eða 6 þingmenn. En um leið og þetta er gert tel jeg rjett að jafna um kosningaskipulagið alment. Ekki þó á þann hátt, að teknir verði þingmenn frá þeim kjördæmum, sem nú eru, eða klipið af sumum og sett við önnur, heldur verði bætt við 3–4 í viðbót og þá í sjávarkjördæmum, t. d. Hafnarfirði, Eyrarbakka eða þar eystra og Barðastrandarsýslu. Með því móti mætti koma jöfnuði á að nokkru leyti.

Jeg hefi hnýtt við þetta frv. þessum almennu athugasemdum, af því að umræðum um hitt frv. lauk svo skyndilega, að jeg hafði ekki tíma til að kveðja mjer hljóðs, en þó hefðu þær átt betur heima þar.