19.02.1920
Neðri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

10. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Hákon Kristófersson:

Af því að háttv. þm. Stranda (M. P.) taldi óánægjuraddir helst hafa heyrst um að launakjör hreppstjóra væru ekki viðunandi eins og þau eru, vildi jeg segja nokkur orð.

Eins og kunnugt er, þá er mjög stuttur tími síðan Alþingi bætti að allmiklum mun laun hreppstjóra. Jeg held að jeg megi slá því föstu, að þegar þær umbætur áttu sjer stað, þá hafi verið út frá því gengið, að þær væru svo sæmilegar, að við mætti una allmörg ár.

Það er að vísu rjett, sem hv. frsm. (M. P.) benti á, að Nd. samþykti í fyrra þingsályktunartillögu, er fór í þá átt, að skora á stjórnina að gera ráðstafanir um að bæta að einhverju leyti laun hreppstjóra. Af hverju sú tillaga kom fram, skal jeg engum getum að leiða, en það leyfi jeg mjer að fullyrða, að engar almennar óskir frá hreppstjórum höfðu komið fram, er bentu á, að þeir væru óánægðir með laun sín. Jeg var á móti þeirri tillögu í fyrra, af þeirri ástæðu, að jeg leit svo á, að hlutur hreppstjóra hvað laun snerti væri eins og er mun betri en margra annara starfsmanna í þágu hins opinbera, t. d. hreppsnefndaroddvita, að jeg tali ekki um hreppsnefndir, skattanefndir o. fl., er ekki fá nein laun fyrir starfa sinn, nema aðköst og vanþakklæti.

Ef hæstv. stjórn lítur svo á nú, að laun hreppstjóra sjeu svo, að ekki megi við una, því gleymdi hún þeim þá á seinasta þingi, er hún bar aðra embættis- og sýslunarmenn landsins eins fyrir brjóstinu og fullyrða má að hún gerði ? Að ályktun sú, er marin var fram með eins atkv. mun, að mig minnir, hjer í deildinni í fyrra, hafi haft við svo mikil rök að styðjast, að stjórnin hafi ekki sjeð sjer annað fært en koma fram með frv. þetta, því get jeg ekki trúað.

Skoðun mín á þessu máli er óbreytt frá í fyrra og jeg vona að svo sje annara starfsbræðra minna, er sæti eiga hjer í hv. deild. en af því mjer og öðrum þykir vel til fallið að sjá, hve margir af þeim eru svo eigingjarnir, að fara nú að nota þetta stutta þing til að hlynna að sjálfum sjer en ganga fram hjá mörgum öðrum, er lakar er farið með, leyfi jeg mjer að mælast til þess, að hæstv. forseti hafi nafnakall um frv.