19.02.1920
Neðri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

10. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Pjetur Ottesen:

Jeg vil að eins gera örstutta athugasemd út af því, hvernig orð fjellu hjá hv. frsm. (M. P.). Hann sagði að úr því að enginn af hreppstjórum þeim, sem sæti eiga í deildinni hreyfði mótmælum, nema hv. þm. Barð.( H. K.), þá mundi hann standa þar einn uppi. Jeg minnist þess, að þegar fram kom hjer í deildinni í fyrra þingsályktunartillagan um að endurskoða lögin um laun hreppstjóra, þá greiddu allir hreppstjórar deildarinnar atkvæði móti henni. Það er þess vegna ekki að þeirra tilhlutun að þetta frv. er hlaupið af stokkunum. Það er ekki af því að hreppstjórum sjeu ofborguð þau störf, sem þeir inna af hendi í þarfir hins opinbera, þó þeir fengju þessa uppbót, sem hjer ræðir um, heldur stendur líkt á með suma aðra, eins og t. d. oddvita, sem mjög litla borgun fá fyrir sitt umfangsmikla og argsama starf, svo og skattanefndarmenn, sem ekkert fá fyrir sinn starfa. Á þinginu 1917 voru laun hreppstjóra og borgun fyrir aukatekjur þeirra hækkuð, en þá voru líka ákveðin hærri laun handa oddvitum og sýslunefndarmönnum. Þetta vildi jeg að einnig nú hefði verið látið haldast í hendur, úr því nokkuð var farið að eiga við þetta á annað borð, en þar sem svo er ekki, þá mun jeg hiklaust greiða atkv. á móti frv., enda tel jeg það fyrir utan starfsvið þessa aukaþings að vera að stofna til annara útgjalda en þeirra, sem óhjákvæmileg eru.