19.02.1920
Neðri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

10. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Það hefir nú sýnt sig, að sumir hreppstjórarnir eru frekar móti frv., og það að eins af þeirri ástæðu, að frv. nær ekki til fleiri en þeirra. Háttv. þm. Barð. (H. K) kom með þessa ástæðu og hugði hana nægja til að sanna sitt mál. En því mætti ekki taka hina hlið málsins taka þá sem á undan eru komnir, og bera sig saman við þá, sem þegar hafa fengið launakjör sín bætt? Eða hvers vegna þarf endilega að gera illa við þessa starfsmenn eða láta þá gjalda þess, þó aðrir starfsmenn sjeu einnig illa settir? Ekki bætir það launakjör hinna. Og eins og öllum þm. er ljóst, þá geta þessir hv. þm., sem nú malda í móinn, komið fram með till. um að bæta einnig laun þeirra starfsmanna, er þeim finst enn verða út undan.

Jeg vona, að þó sumum þessum háttv. hreppstjórum hrjósi hugur við að taka við svona miklu fje úr landssjóði eins og hjer er gert ráð fyrir, þá verði þeir svo sanngjarnir við stjettarbræður sína, að unna þeim bótanna, og greiði þeirra vegna því ekki atkvæði á móti frv.