24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

12. mál, gullforði Íslandsbanka og bann við útflutningi á gulli

Jakob Möller:

Jeg stend að eins upp til þess að undirstrika það, sem háttv. þm. Borgf. (P. O.) sagði, og af því að mig undrar það, að hæstv. stjórn skuli ekki láta neitt til sín heyra um þetta mál, þar sem tækifæri er þó til þess og á hana er skorað að gera það.

Jeg þóttist sjá hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hjer rjett áðan, og var að bíða eftir því, að hann kveddi sjer hljóðs, en þar sem hann hefir ekki gert það, leyfi jeg mjer eindregið að skora á hann að láta skoðun sína í ljós á þessum kæruatriðum, sjerstaklega hvað snertir greiðslu bankans til landssjóðs.