13.02.1920
Neðri deild: 3. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

13. mál, eftirlit með útlendingum

Forsætisráðherra (J. M):

Stjórninni hefir ekki unnist tími til að koma fram með frv. um atvinnurjett aðkomumanna hjer á landi yfirleitt. Það er engan veginn af viljaleysi, að áskorun Alþingis um það efni hefir ekki enn verið sint frekar en gert er í þessu frv. Annars þarf að vanda þessa löggjöf alla vel, og er annars vegar á að líta þörf landsins, og hins vegar viðurkendan rjett erlendra manna í viðskiftum þjóða á milli.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta efni, en vona, að þingið taki þessu frv. vel, enda er það samið eftir fyrirmælum þingsins sjálfs.

Um einstök atriði ætla jeg ekki að tala, og verð þar að vísa til þeirra athugasemda, sem fylgja frv.