17.02.1920
Neðri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

14. mál, stimpilgjald

Magnús Pjetursson:

Jeg get byrjað mál mitt með því að þakka hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) fyrir þær athugasemdir, sem hann gerði við frv. En jeg hefi ekki ástæðu til að halda, að þetta komi að miklu liði, því að jeg hefi beint líku að nefndinni á tveim undanförnum þingum, og jeg geri ekki ráð fyrir, að það komi að nokkru haldi nú fremur en þá.

Mjer þykir illa farið, að nú er blandað inn í þetta stimpilgjald bæði útflutnings- og innflutningsgjaldi. Enda hefi jeg margtekið þetta fram á undanförnum þingum um útflutningsgjaldið.

Jeg er líka þakklátur hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) fyrir ræðu hans. Það gleður mig, að nú er komið annað hljóð í strokkinn en var á síðasta þingi. Útlitið hefir reynst betra en hann gerði þá ráð fyrir. Í því sambandi vil jeg skjóta því til fjárhagsnefndar, hvort þetta frv. muni vera nauðsynlegt. Mjer skilst, að fjárhagur landsins fari hröðum skrefum í áttina til vaxandi velmegunar. Í árslok 1918 voru raunverulegar skuldir landssjóðs um 4½ miljón. Þá var sagt, og það með rjettu, að landið hefði tapað um 2 miljónum á stríðsárunum. En fjármálaráðherra lýsti nú yfir því, að skuldirnar hefðu ekki verið meiri við árslok 1919 heldur en fyrir stríðið. Landssjóður hefir því grætt á árinu 1919 2 milj. meira en gert var ráð fyrir.

Ef þetta er rjett, þá leiðir auðvitað það af því, að fjárhagurinn verður í næstu árslok miklum mun betri en síðasta þing gerði ráð fyrir. Þetta vildi jeg að nefndin athugaði, áður en hún gengist fyrir nýjum skattaálögum. Jeg vildi líka komast eftir því hjá hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), hvort hann geri ráð fyrir, að tekjurnar verði meiri eða minni á þessu ári, 1920, heldur en gert er ráð fyrir í fjárlögunum.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) mintist líka á innanlandslánið, sem nú er verið að bjóða út. Og úr því að hann mintist á lán þetta, vildi jeg geta þess, að síðan stjórninni var heimilað af þinginu í sumar að taka lánið, vegna væntanlegra framkvæmda, og jeg benti þá á fyrir hönd fjárveitinganefndar, að rjett væri að reyna innanlandslán, hafa menn búist á hverri stundu við útboði frá stjórninni. Nú vildi jeg spyrja hæstv. fjármálaráðherra (S. E.). hvers vegna útboð þetta kom ekki fyr. Jeg vænti svars um þetta atriði, því það mun orka tvímælis, hvort ekki hefði verið hentugri tími til útboðs þessa og enn meiri von um árangur.