17.02.1920
Neðri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

14. mál, stimpilgjald

Sveinn Björnsson:

Jeg vildi með síðustu ræðu minni að eins gefa bendingu til fjárhagsnefndar.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) kvað aðalaðfinslu mína gegn frumvarpi þessu vera þá eina, að þetta heitir stimpilgjald, en ekki vörugjald. Þetta er ekki rjett. Jeg tók fram, og tek enn fram, að það er óheppilegt og ekki rjettmætt að kalla venjulegt aðflutningsgjald stimpilgjald. Stimpilgjald er ekki notað hjá öðrum þjóðum á þennan hátt.

Jeg játa það, að jeg er ef til vill ekki jafnkunnugur skattalöggjöf annara þjóða sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), en þó hygg jeg, að það muni ekki þekkjast með öðrum þjóðum, að stimpilgjald sje lagt á allar vörur. Mun það vera lagt á þær vörur hjá öðrum þjóðum, sem hægt er að líma stimpilmerkið á, en mjög óalgengt í öðrum tilfellum. Jeg óska þess, að hv. nefnd taki til athugunar, hvort ekki mundi vera heppilegt að breyta nafninu á gjaldi þessu.

Jeg tel ekki heppilegt að samþykkja þetta frv., nema brýn nauðsyn beri til, en á það hefir hæstv. stjórn ekki bent enn þá.

Væri eðlilegast að taka vörugjaldið sem eitt gjald í einu lagi, en ekki leggja það á undir ýmsum nöfnum á sömu vörur.

Finst mjer, ef þetta á að skoðast sem verðtollur, að það muni harla litlar upplýsingar gefa um ágæti hans, eða hversu heppilegt væri að hafa slíkt fyrirkomulag í framtíðinni.

Mjer virðist það ekki hafa verið nægilega vandlega athugað af stjórninni, hvort gjald þetta mundi ekki koma of þungt niður á sumum vörum. Mjer finst full ástæða til að segja, að fullmikill að flutningstollur sje á sumum vörum; t. d. á niðursoðinni mjólk er hann afskaplegur. Sagði mjer kaupmaður, að tollurinn mundi nema nálægt 50 aurum af pottinum á aðfluttum rjóma. (M. G.: Ætli eitthvað af þessum 50 aurum hafi ekki verið álagning).

Hvað snertir orð fjármálaráðherra (S. E.) viðvíkjandi því, að stjórnin tæki með þökkum tillögum þingsins um betri leiðir, verð jeg að segja það, að jeg tel óheppilegt að slengja þeim vanda á þingið að gera tillögur í þessum efnum. Það er verkefni stjórnarinnar að finna bestu og heppilegustu leiðirnar, en síst verkefni aukaþings að taka óundirbúið við þeim málum, illa undirbúnum frá stjórnarinnar hálfu.

Jeg vil vona, að háttv. nefnd komist að þeirri niðurstöðu, að eigi þurfi að samþykkja frv. þetta, enda tel jeg það óheppilegt, nema brýn nauðsyn sje á því.