17.02.1920
Neðri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

14. mál, stimpilgjald

Magnús Guðmundsson:

Nú hefir fjárhagsnefnd fengið það mikið nesti, að ef hún á að kingja því öllu, er óvíst, að hún geti melt það fyrstu dagana. Hið verulegasta atriði í þessu máli er það, hvort þörf sje tekjuauka, og um það vil jeg fara nokkrum orðum. Mönnum þykir fjárhagurinn eftir árið 1919 glæsilegur, enda var það ágætt ár. En þó að það sje besta tekjuár ríkissjóðs, sem nokkru sinni hefir komið, þá vegur það þó ekki upp á móti versta árinu, 1918. Ef litið er til ársins 1920, þá verður að telja það með öllu óvíst, að allar hinar áætluðu tekjur komi inn. Jeg býst t. d. við því, að útflutningsgjaldið geti orðið miklu lægra en áætlað er, því að það er ekki útlit fyrir, að síldveiðar verði stundaðar af miklu kappi í sumar, en einmitt þær hafa lagt einna drýgstan skerfinn í þessa tekjugrein ríkssjóðs. Þá ber og þess að gæta, að hv. Ed. hækkaði á síðasta þingi að miklum mun tekjuáætlunina, og þess vegna er alls ekki að búast við því, að tekjurnar fari fram úr áætlun, eins og l919, þó að engar misfellur verði. Auk þess vantar alveg tekjur fyrir væntanlegum fjáraukalögum, sem jafnan eru tvenn fyrir hvert fjárhagstímabil. Það er því skylt að reyna að útvega meiri tekjur, og álít jeg, að vel megi una við þá leið, sem frv. fer. Það hefir margt verið að því fundið, sumt ef til vill með rjettu, en altaf er hægara að rífa niður en byggja upp. Það er talað um að fara aðra leið, en engin tilraun þó gerð til að benda á hana. Ef einhver gæti bent á betra, þá yrði eflaust eftir því farið, en þó einhver reyni að rífa niður, en komi með ekkert í staðinn, þá er ekki hægt að hlaupa eftir því. Það er bein skylda okkar að sjá um, að tekjur og gjöld ríkisins standist á nokkurn veginn, og þegar búið er að samþykkja útgjöld, sem ekki eru tekjur fyrir, verður að samþykkja tekjuauka.

Menn hafa eytt ótrúlega miklum tíma í þras um nafn frv. Menn vilja ekki láta kalla þessar tekjur stimpilgjald, þegar það í raun og veru er aðflutningsgjald. Þetta er að eins fyrirkomulagsatriði. Það fer enginn í grafgötur um, hvað farið er fram á, og nafnið hefir að því leyti enga þýðingu. En það hefir aðra þýðingu, það er annað, sem mælir með því, að hafa gjaldið heldur stimpilgjald. Það eru hægri öll reikningsskil, ef svo er. Þetta gætu menn sagt sjer sjálfir, ef þeir vildu athuga það. Það er afhent viss tala stimpilmerkja og svo er annaðhvort að afhenda peninga fyrir merkin eða merkin sjálf aftur. Það er því nákvæmlega hægt að vita, hvað gjaldið er mikið, reikningsskilin verða óbrotin mjög og nákvæm, og öll endurskoðun mjög hæg viðureignar. Jeg skil ekki, hvað menn geta haft á móti fyrirkomulaginu, þegar það verður ekki til að villa heimildir á frv. og hefir þessa kosti, sem jeg hefi bent á.

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) talaði um takmörkun á eyðslu ýmsra vörutegunda. Um það get jeg gefið þær upplýsingar, að fjárhagsnefnd hefir tekið það til íhugunar, og liggur hjer á borðinu fyrir framan mig frv. í þessa átt, sem jeg hefi samið og mun bera undir nefndina.