17.02.1920
Neðri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

14. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (S. E ):

Það er misskilningur hjá hv. þm. Stranda. (M. P.), að bankarnir hafi neitað um að „garantera“ lánið fyr, en þeir rjeðu að eins frá að bjóða það út fyr en nú.

Kjörin, 5½% og 96% afföll, eru ómótmælanlega góð á þessum tímum. Þegar jeg var úti síðast, tóku Svíar stórlán í Ameríku með mun verri kjörum. Það er ekki hægt að draga neinar ályktanir nú af því, sem liðið er á árið, um hvernig það muni verða. Ef mikil óhöpp verða á síldarútveginum, þá munu tekjur ríkissjóðs líða ekki alllítið við það.

Ef sú er tilætlunin, að ársbúskapurinn eigi í framtíðinni að bera sig, þá verður að samþykkja þetta frv. Annars vildi jeg biðja hv. þm. að athuga skattafrv. annarsstaðar í heiminum. Ef þeir gerðu það, þá ímynda jeg mjer, að þeir færu úr öskunni í eldinn. Jeg þakka hv. þm. V. Sk. (G. Sv.) fyrir það, hve vel hann tók í málið, og sje enga ástæðu til að fást um rúsínu þá, sem hann rjetti að mjer að lokum. Athugasemdir hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) voru stílaðar út í bláinn, (Sv. B.: Alls ekki), og þess vegna svo veigalitlar, að jeg sje ekki þörf á því að mótmæla þeim á neinn hátt.