17.02.1920
Neðri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

14. mál, stimpilgjald

Magnús Kristjánsson:

Jeg er farinn að þreytast á því að stritast við að sitja undir þessum löngu umræðum, en vil þó leyfa mjer að leggja nokkur orð í belg. Jeg vil lýsa ánægju minni yfir því að hlusta á skýrslu hæstv. fjármálaráðh. (S E.) og yfir því að heyra, að fjárhagur ríkisins er í mjög góðu lagi, og betri en búist hafði verið við. Það er því komið á daginn nú, sem jeg hjelt fram á síðasta þingi.

Æskilegast væri, ef hægt væri að komast hjá því, að íþyngja þjóðinni með nýjum skattaálagningum. Þetta gjald er þó að vísu ekki gífurlega þungbært, heldur er það óviðkunnanlegt að vera altaf að bæta við þessum smáhækkunum.

Jeg játa það, að að því leyti, sem frv. þetta nær til ónauðsynlegrar vöru, er það gott og þarft, en lengra get jeg ekki orðið því samferða, því að jeg álít það hreinustu fjarstæðu að fara að bæta gjaldi á nauðsynjavörur í þessari dýrtíð, sem nú er. Það ætti öllum að vera ljóst, að sú leið er ófær í alla staði. Þótt aukningin sje að vísu ekki mikil, þá safnast þegar saman kemur. Ef jeg ætti að geta fallist á það, þá þarf að undanskilja ýmsar nauðsynlegustu vörur, eins og t. d. kol, salt, olíu og sykur. Minst hefir verið á það, að það gæti komið til mála að takmarka innflutning til landsins, og þá einkum á ónauðsynjavörum, og virðist mjer það að mörgu leyti rjett.

Jeg vil taka það fram, að jeg er frv. samþykkur að því leyti, sem það snertir ónauðsynlegar vörur. Jeg get ekki fallist á það, að þm. sje mjög gjarnt að leggjast móti tillögum stjórnarinnar um tekjuauka fyrir ríkissjóð, eins og hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) vildi gefa í skyn. Jeg veit ekki betur en margir hafi komið með góðar till. til tekjuauka. Jeg leyfi mjer því að mótmæla þessum áburði, og til þess, að ásökunin geti að engu leyti átt við mig, vil jeg beina því til stjórnarinnar, að hún taki aftur tillögur sínar um auknar álögur á nauðsynjavörur, en endurnýi tunnutollinn, sem gaf af sjer talsverðar tekjur. Þetta álít jeg gott ráð, og þykist með því vilja byggja upp, en ekki rífa niður.