24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

14. mál, stimpilgjald

Ólafur Proppé:

Þegar frv. þetta var til 2. umr., hafði jeg hugsað mjer að taka til máls í máli þessu, en þar sem háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) fór bænarveg, að málið yrði afgreitt umræðulaust til 3. umr., í von um endurskoðun nefndarinnar, ljet jeg mjer það lynda, í von um góðan árangur. Brtt. nefndarinnar eru nú komnar, á þgskj. 60, og þar sem hjer er nú um 3. umr. að ræða, má víst ekki búast við frekara úr þeirri átt.

Frv. þetta kemur fram sem viðauki við stimpilgjaldslögin frá 1918, þau er fela í sjer 1% útflutningsgjald, og munu lög þessi vera fyrirmyndin, ef ekki ástæðan fyrir þessu nýja innflutnings-, eða rjettara sagt verðgjaldi.

Að ríkissjóður þurfi auknar tekjur er í sjálfu sjer mjög skiljanlegt, enda þótt það í þessu tilfelli sje ekki alveg í samræmi við skýrslu hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hjer í deildinni fyrir nokkrum dögum, en það, sem í þessu tilfelli skiftir máli, er aðferðin, sem notuð er til þessa.

Það er nú svo ástatt, að við höfum tolla, vörutolla, bein útflutningsgjöld og stimpilgjaldið, og má með sanni segja, að tollapólitík vor sje sem karbætt flík, sem tæpast er hægt að koma á fleiri bótum, ekki síst þegar svo er ástatt, að bæturnar eru ekki hliðstæðar, heldur hver ofan á annari.

Gjaldstofnar þeir, sem tolllöggjöf vor hvílir á, eru orðnir svo áhlaðnir, að mig furðar tilraun sú, sem nú er gerð til frekari íþyngingar.

Afsökun stjórnarinnar er að vísu sú, að hjer sje að eins verið að vinna fram úr bráðabirgðavandræðum, og lífstími þessa leiðinda-„sleikjuskapar“ sje eigi lengur ætlaður en til ársloka 1921, en það mun vera ómótmælanleg reynsla, að flestir bráðabirgðatollar, sem á hafa komist, hafa reynst langlífari en upphaflega var tilætlast.

Enda þótt 1. nál. hv. fjárhagsnefndar legði til, að frv. yrði samþ. óbreytt, er það þó síður en svo úr garði gert, sem við hefði mátt búast, og enda þótt nú sjeu komnar brtt., sem lagfæra stærstu glompuna, sem sje hlutfallið á milli venjulegs flutnings og póstflutnings, eða þess hluta póstflutnings, sem póstkröfur kunna að fylgja, þá er þó enn sá ágalli, að menn geta hagað póstsendingum sínum þannig, að póstkrafa fylgi einungis örlitlum hluta þess verðmætis, sem í póstsendingunni kann að felast.

Þetta atriði og svo smyglunin, sem frv. opnar dyrnar fyrir í fulla gátt, eru svo alvarleg atriði, að búast hefði mátt við, að betur hefði verið um hnútana búið en tilfellið er. Og þegar svo hjer við bætist, að flokkunin á skrautgripunum er ósundurliðuð og óákveðin, má það engan undra, þótt þetta atriði mundi verða eilíft þrætuepli og óendanlegt úrskurðarefni viðkomandi stjórnarvalda. Í þessu sambandi er það einnig mjög svo athugavert, að í sömu andránni sem verið er að afgreiða hjeðan úr hv. deild lög, er heimila landsstjórninni að banna innflutning óþarfs varnings, þar með auðvitað taldir skrautgripir, — í sömu andránni, segi jeg, er verið að skattleggja þá muni, sem sennilegast enginn innflutningur verður á, það er að segja, ef nokkur alvara fylgir þar máli. Það er því auðsætt, að annaðhvort frv., eða — ef þau ná bæði fram að ganga, að önnurhvor lögin eru einskisvirði. „Principielt“ er jeg á móti öllu stimpilgjaldi, sem hverskonar tollum, hvort heldur inn- eða útflutnings, jeg vil því ráða hv. deild til að fella frv., enda vænti jeg, að tekjuaukinn sje ekki eins nauðsynlegur og látið er í veðri vaka, en sje tekjuaukinn að einhverju leyti bráðnauðsynlegur, þá gæti jeg frekar felt mig við, að gamli vörutollurinn væri enn á ný hækkaður að einhverju leyti, t. d. 3. og 6. flokkur, og mundi á þennan hátt mega fá alldrjúga upphæð enn. Sem sagt, jeg mun greiða atkvæði á móti frv. og brtt., en verði frv. afgreitt hjeðan úr deildinni, skýt jeg því til þeirra, sem hjer eru staddir úr Ed., að taka frv. til alvarlegrar íhugunar þar.