24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

14. mál, stimpilgjald

Pjetur Ottesen:

Jeg skal ekki lengja umr. á þessu stutta þingi, þó að jeg eigi hjer 2 brtt. Jeg vil að eins geta þess viðvíkjandi fyrri brtt., að mjer hafði upphaflega dottið það í hug að koma fram með breytingar, sem miðuðu í sömu átt og brtt. háttv. þm. Stranda. (M. P.), en við nánari athugun sá jeg mjer það þó ekki fært að undanskilja hjer allar nauðsynjavörur. Eins og heyra mátti af hinni góðu og glöggu ræðu hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), þá er nauðsyn á auknum tekjum landssjóðs, ef sú regla á að haldast, að ársbúskapur landsins beri sig.

Hvað því viðvíkur, að jeg vil undanþiggja gjaldinu kol, salt og olíu, þá áleit jeg þær vörur svo þrauttollaðar áður, að ekki væri fært við að bæta. Það virðist varla á bætandi 10 kr. toll á smálestina af kolum og 8 kr. af salti, sem nú er. Þó tollur þessi sje tímabundinn og eigi ekki að standa lengur en meðan verið er að vinna upp tap það, sem varð á þessum vörutegundum meðan landsverslunin hafði einkasölu á þeim, þá er hann þó mjög tilfinnanlegur. Hjer er lengra gengið en viðunandi er, þar sem kolatollur er nálægt 50% og salttollur 30% af innkaupsverði, eins og það var fyrir stríðið. Jeg get ekki neitað því, að jeg hefi mikla tilhneigingu til að fylgja hv. þm. Stranda. (M. P.), en get það þó ekki að sinni. Jeg vona, að vörur þær, sem jeg hefi bent á í brtt. að taka bæri undan, verði undanskildar.

Þá er hin brtt. Þegar jeg sá stjórnarfrv., þá þótti mjer orka mjög tvímælis um eftir orðalaginu, hvaða vörur kæmust undir þennan 10% skatt. Jeg er hræddur um, þegar á að fara „praktisera“ þetta, að þetta óljósa orðalag muni valda svo miklum ágreiningi, að stjórnin, sem skera ætti úr þessu, hefði engan frið á sjer. Og svo gæti farið, að hv. frsm. (M. G.) þætti ekki þægilegt eftir á að hafa kallað slíkt steypiflóð yfir hæstv. væntanlega stjórn.

Ef til vill er orðalag brtt. minnar ekki tæmandi, enda erfitt að ná því á byrjunarstigi málsins. En það dylst þó engum, að ólíkt skýrari er hún en stjórnarfrv.

Frsm. (M. G.) taldi, að ýmislegt mundi sleppa undan, svo sem ýmsir skrautgripir úr gleri, postulíni, gipsi o. s. frv. Þetta getur vel verið, og ef stjórninni þykir geta orkað tvímælis um þessar tilnefndu vörur, og ef til vill fleiri, þá er enn tími til þess að lagfæra það.

Þá hefir hv. frsm. (M. G.) ekki getað fallist á að færa gjaldið af slíkum vörum upp í 20%, heldur í hæsta lagi 15%. Það má náttúrlega segja, að úr t. d. sjeu nauðsynjavara, en þó virðist svo, sem stundvísi manna vaxi ekki í sama hlutfalli og úrin fjölga hjá landsmönnum. En varla get jeg þó talið, að úrin jafnist að nauðsyn við það, sem menn þurfa í sig og á, og ekki get jeg fallist á að hlífa slíkum vörum við allháum tolli, þegar allar nauðsynjar eru svo þrauttollaðar, sem nú er; og er undarlegt samræmið í því hjá háttv. fjár hagsnefnd, að leggjast á móti allverulegum tolli á glysvarningi, eins og hún hefir verið frek til fjárins í skattaálögum á nauðsynjavörur.

Jeg held því fast við till. mína, en hefi ekkert á móti því, að breytingar sjeu á henni gerðar, ef þær koma til bóta.