24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

14. mál, stimpilgjald

Jón Auðunn Jónsson:

Herra forseti! „Principielt“ er jeg á móti þessu frv., en ástæðurnar fyrir því, að jeg greiði því atkvæði, eru þær, að jeg vona, að það verði að eins til bráðabirgða, og að skattalöggjöfin verði athuguð nákvæmlega á næsta reglulega þingi. Önnur ástæðan sú, að jeg tel óvarlegt að fá ekki auknar tekjur nú, og er það í samræmi við ræðu hæstv. fjármálaráðh. (S. E.).

Á því er engiun efi, að útflutningsgjöld af síld verða mun minni á komandi ári en þau hafa verið. Enginn efi á því heldur, að ef þetta frv. á þgskj. 32 nær fram að ganga, þá verður það einskonar „kontrol“, og þó það gefi raunar engar tekjur, þá væri það þess vert að samþykkja það. Um póstkröfur er það að segja, að það er svo lítill hluti, sem fluttur er inn í landið á þann hátt, að þess gætir varla; en ef grunur væri á, að tollsvik væru á þann hátt höfð í frammi, þá væri hægur vandi fyrir lögregluna að grafast fyrir það og taka í taumana.

Eins og jeg hefi lýst yfir, greiði jeg atkvæði með brtt. hv. þm. Borgf. (P. O.). Jeg hefði verið með till. hv. þm. Stranda. (M. P.), sem undanskilur korn, sykur og aðrar matvörur, hefði jeg ekki álitið, að við það yrði tekjuaukinn svo lítill, að hann næmi ekki þeirri upphæð, sem nauðsynleg er.

Ástæðan fyrir því, að jeg vil heldur undanskilja salt, kol og steinolíu, er sú, að þær vörur notar ekki nema þriðjungur þjóðarinnar, og kemur því skatturinn ójafnt niður á mönnum.

Eins og hv. þm. Borgf. (P. O.) tók fram, að tollur af kolum væri alt að 50% af verði þess fyrir stríð, þá virðist það vera illmögulegt að bæta þar á. Það er líka mjög auðvelt að undanskilja þessar vörur, kol, olíu og salt, því þær eru vanalega fluttar sem heill farmur.

Enn fremur er eitt, sem kemur mjer til að vera með þessu frv., og það er það, að kæmi það fyrir, að setja þyrfti verðlagsnefnd, þá er hjer lagður góður grundvöllur. Sumir halda því fram, að innflytjendur myndu skjóta undan af vörum með því að hafa tvöfaldar „facturur“. Það álít jeg óhugsandi, því að margir fá „factururnar“, og mætti því bera þær saman og á þann hátt fletta ofan af því, sem rangt væri, ef nokkuð væri.