24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

14. mál, stimpilgjald

Magnús Pjetursson:

Í raun og veru er jeg alveg á móti frv., og það þá einna mest sökum þess, að jeg álít, að ekki hafi enn þá verið sýnt fram á, að nauðsyn beri til að fá þetta fje í ríkissjóð.

Það tel jeg líka stuðning minni skoðun og mótmæli gegn frv., að alt útlit er fyrir, að nokkrir af hv. nefndarmönnum hafi heitið frv. þessu fylgi sínu með samviskunnar mótmælum; t. d. kvaðst einn vera „principielt“ á móti því, og annar er víst alveg á móti því o. s. frv.

En nú vildi jeg reyna að miðla málum með þessari brtt. minni, um að sleppa nauðsynjavörunum. Jeg tel fylsta ósamræmi í því að hafa t. d. steinolíu undanskilda, en ekki byggingarefni og kornvörur, og nægir mjer því alls ekki brtt. hv. þm. Borgf. (P. O.).

Ef þessi verðtollur á nauðsynjavörum er nægur, eða á að gera nokkuð til að bjarga landinu úr fjárhagsvoða, þá eru fjárhagsvandræðin ekki mikil, því ekki mun hann nema mikilli fjárhæð fyrir ríkissjóð, en hann er ranglátur.

Þótt það sje rjett, sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) sagði, að ekki muni mikið um þetta fyrir einstaklingana, þá safnast þegar saman kemur, og eru þó álögurnar nægar fyrir.

Jeg mótmæli því, að verið sje að hrúga á nýjum tollum án sjerstakrar nauðsynjar nú á þessum tíma, þegar endurskoðun skattalöggjafarinnar stendur fyrir dyrum.

Út af orðum hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) um, að þetta gæti staðið í sambandi við andstöðu til fráfarandi stjórnar og stuðning við hina nýju, þá vil jeg algerlega mótmæla því. Og verð því skýrt að taka það fram, að hvorki mitt atkv. í þessu nje annara þm., að því er jeg hygg, stendur í hinu minsta sambandi við eða sýnir að nokkru leyti afstöðu manna til nokkurrar stjórnar, hvorki hinnar fráfarandi eða viðtakandi.