24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

14. mál, stimpilgjald

Jakob Möller:

Jeg greiddi atkvæði á móti þessu frv. við 2. umr. og það mun jeg enn gera. Undanfarin þing hefir álögum verið skelt á af handahófi og án þess að nokkur ábyggileg áætlun væri gerð um þörfina, og hygg jeg, að fleirum en mjer finnist mál til komið að nema staðar á þeirri brant. Það hefir reynst svo, að allar áætlanir um tekjur ríkissjóðs hafa orðið alt of lágar. Þó að það hafi verið afsakanlegt hingað til, þá verða menn nú að fara að krefjast þess að fá að sjá út úr öllu tollamoldviðrinu. áður en nýjum tollum verður enn bætt við.

Það má lengi segja, að ekkert muni um þennan og þennan tollinn, en svo má lengi við bæta, að óbærilegt verði.

Því hefir verið barið við, að þetta frv. væri nauðsynlegt til að láta landsbúskapinn bera sig. En það vantar alveg sönnunina fyrir því. Í raun og veru veit enginn með neinni vissu, hvað gjaldstofnar þeir, sem fyrir eru, muni gefa miklar tekjur. Tekjurnar fóru ótrúlega mikið fram úr áætlun síðasta ár; það má gera ráð fyrir því, að þær fari einnig töluvert fram úr áætlun næsta ár. Jeg sá en heyrði ekki greinargerð hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) fyrir fjárhag landsins, og þar virtist mjer koma fram, að fjárhagur landsins væri góður, og finn því síður ástæðu til að slengja þessum nýja tolli á. (Fjármálaráðherra (S. E.): Síðasta ár). Jeg sje enga ástæðu til að skilja þannig á milli fjárhagsáranna; ef tekjuafgangur hefir orðið annað árið, þá gerir minna til, þó að tekjuhalli verði næsta ár.

Það er talað um 700 þús. kr. halla, sem búast megi við á þessu ári. Ef tekjurnar fara eitthvað líkt fram úr áætlun eins og síðasta ár, þá kæmi sá halli ekki fram. Hann er ekkert annað en áætlunarupphæð. En þó að um raunverulegan tekjuhalla yrði að ræða, þá er til upp í hann 1 milj. króna tekjuafgangur frá síðasta ári.

Þá álít jeg ekki heldur tilvinnandi að fara þá leið, sem hjer er stungið upp á, fyrir þá upphæð, sem fengist með þessu móti. Að því yrði svo stórum aukinn kostnaður og fyrirhöfn við innheimtu og eftirlit, að jeg tel tvímælalaust betra að horfast í augu við hallann, sem hjer er um að ræða, heldur en að fara nú að bæta einum nýjum gjaldstofninum við, rjett áður en ráðgert er að gerbreyta ef til vill allri skattalöggjöfinni. En ef endilega þarf að fá þessa peninga, þá vil jeg taka í sama strenginn og háttv. þm. Stranda. (M. P.) og háttv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) um, að þá væri eins heppilegt og heppilegra að hækka einhverja liði vörutollsins.

En það er dýrtíð í landinu og því óforsvaranlegt að auka hana með nýjum álögum meðan fjárhagurinn er ekki verri en hann er, eða meðan ekki er ótvírætt sýnt fram á, að það sje algerlega óumflýjanlegt.