24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

14. mál, stimpilgjald

Magnús Pjetursson:

Mjer leiðist að þurfa að taka það upp aftur, sem jeg sagði við 1. umr., en hv. frsm. (M. G.) neyðir mig til þess að nokkru leyti. Hann skildi síst í því, að jeg skyldi ekki sjá nauðsynina á tekjuauka, og átti sennilega við það, að jeg var manna kunnugastur þeim málum á síðasta þingi. En nú er alt annað útlit. Þegar við fórum heim af síðasta þingi, þá var gert ráð fyrir því, að árið 1919 mundi standa í járnum, og yrði þar af leiðandi ekki sem bestur fjárhagur landsins, er til þessa þings kæmi. Talaði jeg því um þá, að jeg teldi sjálfsagt, að þetta þing, sem nú situr, myndi gera sitt til að auka tekjur landssjóðs. En nú er það komið á daginn, að við erum 2 miljónum króna ríkari á þessari stundu en við gerðum ráð fyrir þá, og þegar þar við bætist tekjuauki sá, er stjórnin þegar hefir sjeð fyrir með hækkun símgjaldanna, þá er komið að því, að miklar líkur eru fyrir, að þegar næsta fjárlagaþing hefst, þá verðum við nærri hálfri 3. miljón ríkari en við gerðum ráð fyrir í fyrra. Ef nú þessi breyting til hins betra hefði ekki orðið, þá skal jeg fúslega játa, að jeg mundi hafa orðið með í að samþykkja nú nærri hvaða tekjuauka sem vera skyldi, út úr neyð.

Jeg get heldur ekki hugsað mjer, að þetta frumvarp verði nokkuð til leiðbeiningar skattanefndinni, þó það verði að lögum, og álít jeg því óþarfa prjál og of dýrt að greiða því atkvæði að eins þess vegna.