24.02.1920
Neðri deild: 11. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

14. mál, stimpilgjald

Sigurður Stefánsson:

Jeg hefi nú hlýtt hjer á mál manna um frv. þetta, og verð að segja það, að andmælin, sem jeg hefi heyrt gegn því, hafa styrkt mig í að greiða frv. atkvæði mitt. Það er gersamlega óhugsandi, að nokkurn tíma verði komið með tekjuaukafrv., sem ekki mæti andstöðu einhverra. En hvað sem segja má um stjórn þá, sem nú er að fara frá völdum, þá hefir hún þó sýnt lit á að gefa þinginu yfirlit yfir fjárhag landsins, frekar en áður var. Og þó að fjárhagur landsins sje bærilegur nú sem stendur, þá má gera ráð fyrir, að hann verði það ekki í framtíðinni, nema bætt sje við nýjum tekjum. En um hitt má ef til vill þræta, hvort þetta frv. sje á góðum grundvelli bygt. Jeg verð að segja það, að á þessum óaldar- og jeg vil segja „principslausu“ tímum verðum vjer að láta oss lynda, þó að einhver tekjuauki sje ekki í samræmi við ströngustu „fjármálaprincip“. Vjer verðum að sætta oss við, þó að grípa verði til úrræða, sem kunna að vera vandræðaúrræði Enginn skyldi samt skilja orð mín svo, að jeg vilji segja, að þetta frv. sje vandræðaúrræði. Mjer virðist, að það ætti ekki að vera svo mikill draugur í augum deildarmanna, að þeir þyrðu ekki að sneiða hjá væntanlegum tekjuhalla með því að samþykkja það.

Það tjáir lítt að vitna til endurskoðunar á skattalöggjöfinni. Hún er algerlega mál framtíðarinnar. Og svo gæti farið, að þótt stjórnin leggi frv. þess efnis fyrir næsta þing, að það þætti ekki aðgengilegt og yrði ekki samþykt. Og það er ekki hyggins manns háttur að sníða tekjur ríkisins eftir vonum, sem brugðist geta til beggja handa.

Menn hafa verið að slá því fram hjer, að beinu skattarnir sjeu rjettlátastir. Þó vitum vjer, að tekjuskattsfrv. mætti mótspyrnu, er það var hjer á döfinni, og frekari hækkun á tekjuskattinum mundi mæta meiri mótspyrnu. Atvinnuvegum vorum er líka þann veg farið, þar sem vjer erum fátæk þjóð, að vjer getum ekki vænst, að tekjur ríkisins verði beinar tekjur, nema að litlu leyti. Þjóðareignirnar eru svo litlar, að skattarnir hljóta að lenda meira eða minna á framleiðslunni. Ef hv. þm. halda, að þeir geti fengið nægar tekjur með beinum sköttum, vaða þeir í villu og svima um fjárhag landsins. Jeg held, að vjer verðum að láta oss lynda hvorttveggja, beina skatta og óbeina. Hvorir þeirra reynast betur, sýnir reynslan.

Það hefir verið tekið fram, að landið mundi ekki verða gjaldþrota, þó að þessu frv. yrði hafnað. En vjer verðum að hugsa hærra en að verjast gjaldþroti. Vjer verðum að standast nauðsynleg útgjöld, sem vaxandi kröfur ár frá ári hafa í för með sjer. Og þeir ættu síst að leggjast á móti auknum tekjum landssjóði til handa, er búa þar, sem þarfirnar eru mestar, og heimta miljónir króna til þess að fá þeim fullnægt.

Jeg tel þetta stimpilgjalds-fyrirkomulag að vísu ekki heppilegt. En þrátt fyrir það vil jeg ekki rísa gegn því, þar sem nauðsyn ríkissjóðs er annars vegar. Vjer verðum allir að hafa það hugfast, að oss ber að stefna að því, að þjóðarbúskapurinn beri sig framvegis og ekki verði á hverju ári halli á fjárlögunum, er jafna yrði með lánum á lánum ofan. Ella komumst vjer fyr en varir í botnlausar ógöngur.

Hv. þm. Stranda. (M. P.) gat þess, að fjárhagur landsins væri betri en búist hefði verið við af síðasta þingi. En það er engin ástæða til að ætla, að fjárhagurinn verði eins glæsilegur næsta ár. Því að útlit er til, eins og vjer vitum, að sá atvinnuvegurinn, er mest gaf af sjer, síldarútvegurinn, liggi sennilega í kaldakoli næsta ár. Og það getur höggið ærið skarð í tekjur landssjóðs.

Jeg býst við að hversu vel sem hinni fyrirhuguðu skattanefnd tekst að endurskoða skattamál landsins, muni hún ekki komast hjá að leggja töluvert háa skatta á framleiðsluna, því að vjer komumst aldrei nema nokkuð á leið með tekjuskatti.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um frv. þetta frekar, en vil að eins lýsa yfir því að lokum, að jeg mun ljá því fylgi mitt, jafnvel þó þar af leiði, eftir skoðun háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), að jeg sje ekki almennilegur maður.