26.02.1920
Efri deild: 13. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

14. mál, stimpilgjald

Frsm. minni hl. (Björn Kristjánsson):

Það var rjett hjá háttv. frsm. meiri hl. (G. G.), að það er ekki vegna þessa frumvarps sjerstaklega, heldur framtíðarskattamálanna yfirleitt, sem athugasemdir og tillögur mínar í þessu máli beinast að. Og að því er þetta frv. snertir sjerstaklega, er jeg þeirrar skoðunar, að það sje óþarft og skapi stjórninni óþarft ómak. En alt þetta ómak mátti spara, að eins með því að hækka útflutningstollinn eða vörutollinn.

Eftir þeirri skýru og skilmerkilegu ræðu, sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hefir nýlega haldið, verð jeg að segja það, að jeg hefi setið á mörgum þingum, þar sem fjárhagshorfurnar hafa verið ískyggilegri en þær eru nú, án þess hlaupið hafi verið af stað til að skapa nýja tolla. Jeg tel því enga knýjandi ástæðu til þessarar hækkunar nú, og get þar — og um málið í heild sinni — vísað til nál. míns, sem jeg geri þó tæpast ráð fyrir að hv. þm. hafi enn haft tíma til að lesa. Jeg hefi þar sýnt fram á það, hvaða rjettlæti, eða öllu heldur skortur á rjettlæti, er í því fólgið að seilast eftir tolli á barnaleikföngum, sem á sumum stöðum mega jafnvel teljast nauðsynjavara, eins og bent er á í nál. Jeg held líka, að mönnum hafi hjer vaxið um of í augum jólasýningar búðarglugganna, sem allmikið hefir verið talað um. Mest af þessum leikföngum er einmitt keypt af efnamönnum og þá oft til þess að gefa þau fátæklingum til glaðningar. — Að því er skrautgripina snertir, held jeg, að menn hafi líka gert of mikið úr þeim og þeirra þýðingu í þessu máli. Gjaldið af þeim nemur í rauninni ekki miklu, og þar að auki verða þeir ekki taldir óþarfaraunir að öllu leyti. Jeg held líka, að það yrði óhægt um vik að innheimta og ákveða gjöldin af þessum svo nefndu ónauðsynjamunum, af úri eða legubekk, sem tveir menn kaupa. Hvorugt getur talist ónauðsynlegt, en samt getur annar keypt dýrari tegund en hinn, og hvað þá?

Að því er gjaldið snertir af póstkröfum, er lítið á þeim að byggja. Sumir borga t. d. helming vörunnar fyrirfram, eða jafnvel meiri hlutann, og nær póstkrafan þá ekki nema til afgangsins. Póstkröfur geta því ekki verið neinn grundvöllur fyrir tolli. Auk þess mun beinlínis þurfa að breyta 7. gr., ef hún á ekki að koma í bága við alþjóðapóstlög, því það er ekki samkv. þeim að borga þannig gjald af öllu, sem með pósti er flutt, eða að frímerkjasala, sem þannig er notuð, eigi að teljast með pósttekjum.

Og að lokum hlýtur afleiðingin af því, að svona hár tollur er lagður á þennan varning, að verða sú, að hann hætti að flytjast, og hvar er þá tekjuaukinn af honum? Hvar er hann?