26.02.1920
Efri deild: 13. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

14. mál, stimpilgjald

Frsm. minni hl. (Björn Kristjánsson):

Jeg fyrir mitt leyti tel mjer það enga minkun, þótt hæstv. fjármálaráðh. (M. G.) hafi fundist jeg fastheldinn við fyrri skoðun mína í þessu máli. Að minsta kosti hefir ræða hans ekki orðið til þess að veikja þessa sannfæringu mína, heldur jafnvel þvert á móti, eins og jeg mun sýna með því að fara stuttlega yfir helstu ástæður hans.

Um álit lögreglustjórans á þessu máli fer nú tvennum sögum, því við aðra menn mun hann hafa sagt, að verðtollslögin væru óframkvæmanleg.

Um „óþarfa“ þeirra vörutegunda, sem hjer er um að ræða, — leikfanga og skrautgripa, — hefi jeg áður talað og hrakið fyrirfram ástæður hæstv. fjármálaráðherra (M. G.), einnig á fyrri þingum, og get vísað hjer til þess. En þó get jeg bætt því við, að ef fara ætti að framkvæma skatt þennan út í ystu æsar, þá færu erfiðleikarnir að aukast, svo margur er „óþarfinn“, sem svo er nefndur. Hvað yrði þá t. d. um okkur veslings neftóbaksmennina? Því ekki mundu þessir þarfa postular telja neftóbak nauðsynjavöru, eða hvað?

Út af því, sem hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) sagði um vörutollslögin í samanburði við verðtollinn, vil jeg undirstrika það, að að svo miklu leyti, sem sá samanburður gæti talist rjettur, eru örðugleikarnir við vörutollinn ekki stefnunni að kenna í sjálfu sjer, heldur hinu, að þingið hefir ekki haldið stefnunni hreinni, hefir eyðilagt málið að ýmsu leyti, sem hefir orsakað vafninga.

Hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) vill láta reynsluna skera úr, hvort verðtollsleiðin sje fær.

Hvernig ætlar hann að fara að því að fá þessa reynslu?

Jeg hefi bent á það í áliti mínu, að jafnvel þó að lögreglustjórar hjer hafi grun um verðtollssvik, þá geti þeir ekkert aðhafst, vegna þess að sökudólgarnir geta alveg eins átt heima í öðrum ríkjum. Það er því fyrirfram sjáanlegt, að það er alls ekki hægt að koma brotum upp, því enginn lögreglustjóri hjer getur krafist rannsóknar í öðrum ríkjum yfir slíkum mönnum. Reynslan getur því ekki skorið úr. Auðvitað kemur altaf eitthvert hrafl af tekjunum, því ekki eru allir svo gerðir, að vilja svíkjast um að greiða lögboðna tolla eða skatta, og tolllöggjöfin getur stemt stigu fyrir tollsvikum, og það á hún að gera, eftir því sem unt er. Og það á auðvitað að vera fyrsta markmið allrar tolllöggjafar að gera lögin svo úr garði, að landssjóður fái sitt, og að sem fæstir geti haft tækifæri til að beita sviksemi við landssjóð.