10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

Rannsókn kjörbréfa

Gísli Sveinsson:

Jeg er samþykkur hv. frsm. 3. kjörbrjefadeildar og tel sömu ástæður hjer fyrir hendi og ef annar þingmaður fjelli frá í tvímenningskjördæmi. Annars virðist hjer blandað saman tveimur atriðum, því, sem varðar frambjóðanda, og því, sem varðar kjósendur. En hjer er tvent ólíks eðlis; sitt hvað, hvað frambjóðandann snertir, hvort hann sje löglega kosinn eða ekki, og svo í annan stað hitt, hvað heppilegt er eða haganlegt fyrir kjósendur. En því held jeg fram, að þeir ágallar, sem gera kosninguna ógilda, þeir gildi jafnt fyrir báða. En annars læt jeg ómótmælta tillögu kjörbrjefadeildarinnar um að taka gilda kosningu 1. þm. Reykv. (Sv. B.), því segja má, að betri sje hálfur skaði en allur.

Frsm. 3. kjörbrjefadeildar (M. G.) mintist á rannsókn út af kærunum frá Ísafirði. En ef stofnað er til hennar, þá leiðir af sjálfu sjer, að hún verður að vera óhlutdræg, hvorki gerð af dómara þeim, sem hjer á hlut að máli, nje fulltrúa hans.

Annars er óþarfi að ræða þessa kæru lengur, því að hún er þannig vaxin, að þingið getur ekki um hana fjallað nje úr henni skorið. En það fáheyrilega er, að hinn frambjóðandinn hygst að geta sest í þingsætið að kosningunni ógiltri, ef til þess hefði komið hjer, og því undarlegra, sem hann er mikilsvirtur lögfræðingur.