10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

Rannsókn kjörbréfa

Gunnar Sigurðsson:

Það verður í þessu máli, sem öðrum, að greina vandlega milli kjarna og aukaatriða. Mjer finst, að þess hafi ekki verið gætt hjer í deildinni í dag. Aðalatriðið er vitanlega vilji kjósenda, og eftir því verður að fara. Ef gallar þeir, sem á kosningunni eru, hafa valdið því, að önnur urðu úrslitin en kjósendur vildu, þá ber að ógilda kosninguna að því leyti. Um kosningu háttv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) er það að segja, að atkvæðatala hans var svo lág, að litlu mátti muna, að keppinautur hans hrepti sætið. Það er vitað, að 14 menn hafa kosið án þess að hafa kosningarrjett, og hafa þeir því hæglega getað ráðið úrslitum. Um kosningu háttv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) er öðru máli að gegna. Þar var atkvæðatalan svo yfirgnæfandi, að 14 menn gerðu hvorki til nje frá. Þeir, sem líta á vilja kjósenda sem aðalatriðið, þeir verða sjálfum sjer samkvæmir, ef þeir ógilda aðra, en gilda hina. Hinir, sem aðallega eða eingöngu líta á formið, sem líta meira á aukaatriðin en kjarnann, þeir komast vitanlega að annari niðurstöðu. Mjer virðist þetta svo ljóst, að það er óþarfi að taka það fram, að skoðun mín sem flokksmanns hefir hjer engin áhrif. Mjer þykir líka vænt um, að flokksáhrifa hefir yfirleitt ekki gætt, og því til staðfestingar má benda á, að tveir flokksbræður hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) greiddu atkvæði móti kosningu hans.

Jeg hefi þá skoðun um kosningu hv. þm. Ísaf. (J. A. J.), að þar verði að fara varlega. Það er ekki sannað, að mútur eða annað því líkt hafi haft áhrif á úrslitin, en þó á báðum málspörtum að vera í hag, að rannsókn fari fram, og það sem fyrst. Jeg álít ekki hundrað í hættunni, þótt kosningunni væri frestað. Ef við grípum ekki fyrir kverkar atkvæðakaupara í tíma, þá erum við á hálum brautum. Sjerstaklega ef svo fer, að farið verður að vinna með erlendu fje á landi hjer, sem í sjálfti sjer er ekki neitt að athuga við, þá ber að taka alvarlega í taumana í slíkum málum í tíma.