19.02.1920
Neðri deild: 7. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

19. mál, löggilding verslunarstaða

Flm. (Ólafur Proppé):

Mál það, sem jeg flyt hjer í fyrsta sinn, sem jeg stend upp í þessari hv. deild, er í raun og veru mjög einfalt mál, og jeg vænti þess, að það fái fram að ganga breytingalítið. Þetta er að vísu eitt þeirra mála, sem hefði mátt bíða, en jeg hafði afhent það áður en sú ákvörðun var tekin, að hafa þingið stutt, og jeg kunni ekki við að taka það aftur.

Ástæður fyrir þessu frv. eru prentaðar með því, og þarf jeg þar engu við að bæta. Eins og menn vita, er Önundarfjörður einhver fjölmennasti fjörður þar vestra; hann hefir um 2 þús. íbúa, en að eins verslunarstað á Flateyri. Á Flateyri og Sólbakka eru síldarstöðvar góðar og líklegar til frambúðar. Yfirleitt er Önundarfjörður í uppgangi, og þykir mönnum henta að bæta einum verslunarstað við. Valþjófsdalur er best til þess fallinn, og þykir mjer líklegt, að þar geti komið síldarútvegur, því staðurinn er vel til þess sniðinn.

Það mun ekki þörf að fara um þetta fleiri orðum, en jeg vildi mælast til þess, að frv. yrði vísað til 2. umr.