10.02.1920
Sameinað þing: 1. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. 3. kjörbrjefadeildar (Magnús Guðmundsson):

Jeg kemst ekki hjá því að standa upp og drepa á ýms atriði í ræðum sumra hv. þm. Hv. þm. Dala. (B. J.) var í sömu kjördeild og jeg, og hreyfði hann þar ekki mótmælum gegn ákvæðum deildarinnar um Ísafjarðarkosninguna, en um Reykjavík tók nefndin enga afstöðu. Jeg leit svo á, að þessi háttv. þm. ætlaði að fylgja deildinni að málum, og kom því hálfkynlega fyrir, hvernig hann snerist í því máli.

Hvað snertir kosninguna í Reykjavík, þá eru það margir, sem vilja ógilda kosningu hv. 1. þm. (Sv. B.), úr því hin var feld. Þeir taka ekki tillit til þess feikna atkvæðamunar, sem var á þessum mönnum. Þeir blína á formgallann og aðgæta það ekki, að um kosningu háttv. 1. þm. gerir hann hvorki til nje frá, en hann hefir getað orðið til þess, að hinn náði kosningu. Formgallinn er sá sami, en það var ekki hann, sem rjeð því, að kosning Jakobs Möllers var ógilt, heldur það, að auðsætt er, að formgallinn getur hafa haft áhrif á úrslitin. Ef við ættum að ónýta kosningar vegna hvaða formgalla sem væri, mundu fáir okkar löglega kosnir. Það er margra reglna að gæta, alla leið frá því framboð er afhent og þar til kjörbrjef er gefið út, svo að hætt er við einhverjum formgalla. Og það hefir aldrei verið siður þingsins að ónýta kosningu fyrir hvaða formgalla sem er, og sjest það best nú á kosningu hv. þm. Stranda. (M. P.), sem er allmikill formgalli á, en allir vilja taka gilda. En þá er að skýra fyrir sjer, hvaða formgallar það eru, sem valda eiga ógildingu, og er jeg ekki í vafa um, að hið eina, sem með rjetti er hægt að greina formgallana sundur með, er þetta, hvort þeir geta hafa haft áhrif á úrslitin eða ekki. Þetta er hið eina fasta, sem hægt er að fara eftir, og getur gilt altaf, nema þegar vafi er á um heiðarleik þm. Að samþingismenn sjeu einna svipaðastir samvöxnum tvíburum, er víst fremur sagt til gamans en sem rök. Hv. þm. Árn. (E. E.) mintist á eins manns kosningu í tvímenningskjördæmi sem eitthvað sjerstakt, og honum var jeg að svara í þessu efni, er jeg benti á, að oft geta komið fyrir eins manns kosningar í tvímenningskjördæmum, en sagði ekkert um, að t. d. dauði þm. og ógilding kosningar væru samstæð tilfelli. Háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) og aðrir, sem um þetta hafa talað, hafa því slegið algert vindhögg.

Þá sný jeg mjer að Ísafjarðarkosningunni. Það, sem reið baggamuninn hjá mjer, var, að ekki var sjáanlegt, að neitt yrði lagt háttv. þm. (J. A. J.) til lasts. Enginn hefir borið það fram, að hann hafi átt nokkurn þátt í þeim fjeboðum og fríðinda, sem yfir er kært, og er því rangt að láta hann gjalda þess. Jeg álít það alt of langt gengið að ónýta allar þær kosningar, þar sem mútur kynnu að vera boðnar, því þá gæti keppinautur eyðilagt kosningu óvinar síns með því að láta bjóða fje fyrir kosningu hans. En hitt er ekki nema rjett og sjálfsagt, að rannsókn fari fram, og ef það kemur þá í ljós, að háttv. þm. hafi verið við slíkt riðinn, jeg segi ef það kemur í ljós, þá missir hann vitanlega kjörgengi sitt. En meðan ekkert er upplýst um það, þá sje jeg ekki ástæðu til að ógilda kosninguna þess vegna.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) gat þess, að kærandi hefði fleiri plögg í fórum sínum, og væri þá æskilegt, að þau hefðu komið fram. Mig furðar satt að segja á því, að kærandi skuli ekki hafa afhent háttv. þm. (B. Sv.) skilríkin.

Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) var mjer samdóma um Reykjavíkurkosninguna, og þarf jeg ekki að ræða það frekar. En hann gat um, að tveir flokksbræður Jakobs Möllers hefðu greitt atkvæði móti kosningu hans, og átti hann þar víst við mig og háttv. þm. Stranda. (M. P.). Jeg skal því taka það fram til leiðbeiningar framvegis, að við erum ekki í flokkssambandi, heldur er hjer um utanflokkasamband að ræða, sem að eins gengur saman til kosninga innan þings.

Þá talar hv. þm. (Gunn. S.) um mútur, og eru víst allir sammála um það, að þær sjeu hættulegar og megi ekki viðgangast. Jeg býst líka við því, að allir verði á eitt sáttir um að skipa rannsókn í málið. En ef á að eyðileggja kosningu hv. þm. Ísaf. (J. A. J.) fyrir þessar sakir, þá er það sama og að hengja bakarann fyrir smiðinn, og hefir það aldrei þótt neitt fyrirmyndarrjettlæti.