23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

29. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Ástæðan fyrir því, að fjárhagsnefnd flytur þetta frv., er sú, að eigi mun minni ástæða fyrir oss en ýmsar aðrar þjóðir að óttast það, að á næstu tímum verði flutt svo mikið inn af vörum, að skuldir safnist, vegna þess, að ekki fæst nægilega mikið fyrir útfluttar vörur. Það er hreyfing uppi um að takmarka innflutning með ýmsum þjóðum, og ef ástæða er til þess með Norðmönnum og Svíum, þá virðist ekki síður ástæða til þess fyrir oss, því gengi danskrar krónu er lægra en norskrar og sænskrar, en við þurfum að versla við England og Ameríku, en þeirra peningar eru í háu verði. Þetta er fjárhagshlið málsins.

En það eru líka aðrar hliðar. Við höfum lítinn skipakost og erum í vandræðum með að fá flutning til landsins. Skipin eru fá, og auk þess má búast við, eins og nú stendur, að þau verði að sæta töfum vegna kolaleysis og sóttvarna. Það er því nauðsynlegt að fara eins vel með skiprúmið og unt er og láta nauðsynjavörur sitja fyrir, en nú er svo, að mikið af skiprúminu er fylt óþarfa varningi. Af þessum ástæðum meðal annars er frv. fram komið. Jeg veit, að Eimskipafjelag Íslands lítur það ekki illu auga, og bankarnir telja þess fulla þörf. Að vísu gætu þessar stofnanir hindrað þetta eitthvað sjálfar, en þó þykir þeim þægilegra að hafa lög til að styðjast við. Baukarnir eiga líka erfitt með að neita um lán, því oft getur verið rangt skýrt frá um það, til hvers á að nota peningana, og svo er ómögulegt að neita þeim, sem eiga inni.

Það var í fyrstu meiningin að takmarka þessa heimild við glysvarning, en við nánari athugun sá nefndin, að hún varð að byggja á breiðari grundvelli, og getur stjórnin ákveðið, hvað teljast megi óþarfa varningur. Nefndinni þótti rjett að treysta stjórninni til þessa og takmarka ekki um of með flokkun og upptalningum.

Það er líklegt, að þetta hafi kostnað í för með sjer, ef heimildin verður notuð, en nefndinni vex það ekki í augum og telur því fje vel varið, því að það vita allir, sem nokkuð til þekkja, að vjer flytjum mikinn óþarfa inn, og ef afleiðingar þessa frv. verða þær, að slíkur innflutningur verði að nokkru takmarkaður, telur nefndin ekki til ónýtis barist.