23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

29. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Eiríkur Einarsson:

Jeg vildi láta þá skoðun mína í ljós, að jeg get vel felt mig við það, að stjórnin hafi heimild til að takmarka og banna innflutning á óþörfum varningi. En jeg vildi láta það í ljós, að jeg álít frv. of þröngskorðað. Það getur stafað hætta af of miklum innflutningi á fleiri vörutegundum en þeim, sem vanalega eru kallaðar óþarfar. Það getur einnig flust svo mikið inn af nauðsynjavörum, að þær megi að nokkru leyti teljast óþarfar. Jeg álít þetta nauðsynjamál, og því vildi jeg, að sjerstök nefnd yrði skipuð til að hafa eftirlit með öllum innflutningi til landsins. Hún ætti að afla sjer upplýsinga um, hvað mikið þyrfti af hverri vörutegund, og hve mikið fyrirliggjandi, og hindra það, að meira flyttist inn en þyrfti. Sumar vörur, sem annars teljast nauðsynlegar geta blátt áfram orðið plága vegna of mikils innflutnings, og get jeg nefnt sem dæmi kaffi með Dönum. Það er orðið þar svo mikið, að til vandræða horfir. Það má því teljast óþarfavarningur hjá Dönum, þótt yfirleitt sje það ekki kallað svo. Eins getur farið hjer, og getur vel verið, að svo sje þegar um ýmsan varning, þótt mjer sje ekki kunnugt um það. Á þetta þarf að leggja hömlur, en það verður ekki gert nema með sjerstakri nefnd, er sje sterk og vel skipuð. Landið er að fyllast af óþarfa. Það eru ekki nauðsynjar, sem blasa við manni úr búðargluggunum hjerna, heldur sælgæti og allskonar pjatt og glingur, og blöðin þegja því dyggilegar yfir þessu, því meir sem auglýst er.

Það, sem frv. fer fram á, er því sannarlega orð í tíma talað. En jeg vil, að þetta nái lengra. Jeg álít, eins og jeg hefi tekið fram, að best væri að skipa sjerstaka nefnd til þess að sjá um, að lögunum verði framfylgt. Jeg hygg, að stjórninni sje ofvaxið að annast þetta eftirlit. Það er og dálítið vafamál að fleiru leyti en hjer hefir verið nefnt og krefur nákvæmrar athugunar, hvað á að teljast nauðsynjavara. Á þessum tímum ætti að eins að flytja þær vörutegundir til landsins, sem eru nauðsynlegar. Eigi því frv. í þessa átt að koma að nokkrum notum, þarf innflutningsbannið að ná lengra eða vera rýmra en frv. bendir til, og hins vegar öflug innflutningsnefnd að vera skipuð til þessa eftirlits, ef þetta á að verða meira en pappírsheimild, er enginn fer eftir.