23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

29. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Pjetur Ottesen:

Jeg álít fyrir mitt leyti, að yfirleitt sje það mjög varhugavert, að löggjafarvaldið fari inn á þau svið, sem snerta persónu- og athafnafrelsi einstaklingsins, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. En hjer virðist það þó blasa beint við, að reynt sje að hamla móti þeim háska, að flutt sje, eins og nú er ástatt, um of inn í landið allskonar óþarfavara og í svo ríkum mæli, að vjer getum ekki flutt til vor þær vörutegundir, sem oss ríður mest á, vegna þess, að skiprúmin eru fylt af allskonar skrani. Þetta er mjög hættulegt, einkanlega á þessum tímum. Auðvelt hefði verið að flytja t. d. meira af matvöru frá Ameríku en gert var, áður en dollarinn steig svo í verði, sem nú er raun á orðin, ef skiprúmin hefðu ekki verið fylt af allskonar skrani og óþarfa. Undir þetta mætti að vissu leyti telja hinn geipilega innflutning af bifreiðum síðastliðið sumar. Á jeg þar ekki við vöruflutningabifreiðarnar, en eins og fólksflutningabifreiðar eru notaðar hjer í bænum að mjög miklu leyti, er fullkomlega rjettmætt að telja þær með þeim vörum, sem rýma hefðu átt fyrir öðrum nauðsynlegri. Jeg álít því nauðsynlegt, að hjer sje hafist handa.

Það er vitanlegt, að stjórnin þarfnast að einhverju leyti aðstoðar, til þess að annast eftirlitið. En hins vegar er jeg ekki trúaður á þessar nefndarskipanir. Vjer höfum haft slíkar nefndir á stríðsárunum á hverju strái. Gagnsemi þeirra hefir leikið mjög á tveim tungum. Jeg er því ekki mótfallinn, heldur tel sjálfsagt, að stjórnin taki sjer nauðsynlega aðstoð til að framfylgja þessum lögum, en hygg, að vel megi komast hjá að setja á laggirnar eitthvert nefndarbákn í þessu augnamiði.

En það, sem kom mjer sjerstaklega til að standa upp, eru orðin í frv.: „ef stjórnin notar þetta.“ Jeg álít sjálfsagt, að hún noti heimild þá, sem frv. inniheldur, og það strax, og geri eitthvað til þess að koma í veg fyrir innflutning á óþarfavöru, svo að lögin verði ekki einungis dauður bókstafur, eins og oftar hefir viljað við brenna.