23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

29. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Eiríkur Einarsson:

Jeg vildi að eins segja nokkur orð í sambandi við ræðu hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.).

Jeg vil geta þess, í sambandi við það, sem þm. (Jak. M.) sagði um gengið, að jeg mintist ekki á þýðingu frv. á það. En það er ljóst, að við gætum vel sökt okkur í þann verslunarmunað og innflutningsafglöp, að haft gæti mikil áhrif á verðgildi peninga þeirra, er við notum, dönsku krónuna. Einnig ber þess að gæta, að ef flutt væri inn of mikið af einhverri vörutegund, gæti það haft áhrif gagnvart oss, ef peningagengið fjelli aftur. Hann sagði t. d. um kaffið, að birgðir þær, sem safnað var í Danmörku, hafi verið fluttar til Þýskalands. Auðvitað er engin hætta á slíku hjer. Vjer þurfum ekki að gera ráð fyrir því, að stórsalar viði að sjer í því skyni. En sumir þeirra kaupa hvern þann varning, sem berst þeim í hendur og auðfengnastur er, eða mest þörf á í augnablikinu. En það ber nauðsyn til að koma í veg fyrir, að þeir flytti of mikið inn af hálfnauðsynlegri og óþarfri vöru, og ekki óþarflega mikið af neinni vöru. Heyrst hefir jafnvel, að erlendar vörur hafi verið fluttar hjeðan til útlanda, t. d. Danmerkur, og mundi vera hægt að nefna þess dæmi, ef þyrfti.

Hv. þm. Borgf. (P. O.)sagði, að nefndarskipun ljeti vel í eyrum, en gagnið af henni mundi verða lítið. Bar hann þar fyrir sig nefndirnar, sem sátu á stríðsárunum. Jeg verð samt að halda því eindregið fram, að nefndarskipun sje heppileg og nauðsynleg í þessu sambandi, og á jeg þar við sterka nefnd, en ekki ónýta. Ef nefndin verður nægilega sterk, eru miklar líkur til, að hún muni gera eitthvert gagn, og án slíkrar nefndar er frv. þetta ónýtt.