23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

29. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Það eru að eins örfá orð í sambandi við ræðu hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.).

Þó að skipuð yrði nefnd til að hafa eftirlit með innflutningnum, þá mundi hún verða á alt annan veg en innflutningsnefnd sú, sem hjer starfaði stríðsárin. Hjer mundi að eins verða bannaður innflutningur á tiltölulega fáum vörutegundum. Því verður alls ekki neitað, að það eru ýmsar vörutegundir, sem nauðsynlegt er að takmarka innflutning á. En þetta verða þó varla svo margar vörutegundir, að fyrirkomulagið þurfi að verða hið sama sem átti sjer stað á stríðsárunum.