25.02.1920
Neðri deild: 12. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

29. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er vitanlegt, að nú er alstaðar verið að berjast á móti óþarfri eyðslu, óþörfum aðflutningi sjerstaklega, en jeg veit ekki til, að innflutningur á vörum sje enn beinlínis bannaður í nokkru landi, nema ef vera skyldi í Þýskalandi og öðrum stríðslöndum. Auðvitað verður örðugt að framkvæma bann á öllum óþarfavarningi og að ýmsu athugavert að taka þannig fram fyrir frjálsar athafnir manna. En nauðsyn getur brotið lög, og það er gott, að stjórnin hafi heimildina, og getur verið ástæða til að beita henni, en þó skal jeg ekkert um það segja, hvort það verður gert eða ekki. Jeg hefi þegar eftir heimkomu mína frá útlöndum fyrri partinn í vetur minst á þetta mál við bankana og stærri verslunarmenn, og eru þeir allir á því, að gott væri að takmarka innflutninginn að einhverju leyti. Annarsstaðar hafa nefndir það starf með höndum, og er það hægra þar sem betur er búið um alt bankafyrirkomulag og viðskifti. En sem sagt, þá er gott að hafa heimildina, og verður reynt að nota hana, ef hægt verður og það þykir henta.