25.02.1920
Neðri deild: 12. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

29. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Pjetur Þórðarson:

Jeg held, að jeg hafi verið sá eini, sem greiddi atkv. á móti þessu frv. við 2. umr., og þykir mjer því hlýða að færa fram ástæður mínar. Jeg fjekk þegar í stað hugboð um það, að slík lög yrðu þinginu til lítillar sæmdar, og væntanlegri stjórn til lítils gagns. Mig furðaði því á því, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) skyldi lýsa ánægju sinni yfir því, að stjórninni yrði veitt þessi heimild. Framkvæmdin er svo umfangsmikil, að jeg býst við, að hæstv. stjórn láti sitja við leyfið, en sjái sjer ekki fært að nota það, og verða þá lögin að eins pappírsgagn. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg vilji ekki láta takmarka innflutning á óþarfavarningi, ef mögulegt væri, því mikið fje gengur í hann árlega. En það hefir verið látið í ljós af skýrum mönnum hjer á þingi, að erfitt væri að framkvæma lögin um bann gegn innflutningi þeirrar einu vörutegundar, sem bönnuð er, og hefir því verið lýst með sterkum dráttum. Í þessa vöru fer mikið fje, en auk þess hefir hún annað skaðlegt í för með sjer. Um varninginn, sem nú á að banna, er ekki nema öðru til að dreifa. Jeg held, að erfitt verði að verjast smyglun meðan eftirlitið er eins og það er nú. Þessi varningur kostar að vísu mikið fje, en hann hefir þann kost, að hann eykur fegurðarnæmi manna og fegrar og skreytir umhverfi þeirra. Jeg get því ekki verið frv. hlyntur og held, að lögin verði þingi og stjórn lítill sæmdarauki.