25.02.1920
Neðri deild: 12. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

29. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Einar Þorgilsson:

Jeg er samþykkur þessu frv. og mun greiða atkv. með því, þótt jeg geti búist við, að ekki verði mikið úr framkvæmdum, og liggja til þess 3 ástæður. Fyrsta ástæðan er sú, að nú liggur mikið fje í óþarfavarningi, og er útlit fyrir, að sett verði í hann meira fje, sem betur væri notað til einhvers þarfara. Önnur ástæðan er sú, sem hæstv. forsætisráðherra (J. M.) benti á. Óþarfinn tekur upp svo mikið skiprúm, að ekki getur flust eins mikið til landsins af nauðsynjum og æskilegt væri. Þriðja ástæðan er það, að nú gengur eyðsla manna úr hófi fram, og væri vel, ef hægt væri að takmarka hana eitthvað. Jeg lít svo á, að stjórnin geti skipað nefnd í þetta mál, ef henni þykir það henta, en hún þarf ekki að beita lögunum nema henni þyki þeirra þörf.

Jeg hefi nú gert grein fyrir atkv. mínu, og verður það með frv.