21.02.1920
Neðri deild: 9. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

30. mál, mótorvélfræði

Flm. (Magnús Kristjánsson):

Jeg býst við, að þetta frv. þurfi ekki skýringar við, annara en þeirra, er í greinargerðinni felast. Jeg ætla að eins fáum orðum að minnast á, að menn, sem gæta vjela á mótorskipum, ættu að eiga kost á að afla sjer nauðsynlegrar fræðslu í þeim efnum, við opinbera stofnun, sem talist gæti fræðslustarfinu vaxin. Síðustu 15 ár hafa miklar breytingar orðið á sjávarútvegi; árabátar hafa lagst niður, en í stað þeirra komið fjöldi mótorbáta og mótorskipa. Í skipum þessum liggur stórfje, og árangurinn af útgerðinni getur því að eins orðið góður, að alt sje í lagi, og er því nauðsynlegt, að reglur sjeu settar um það, hverjir megi hafa vjelgæslu á hendi. Hingað til hefir ekki verið kostur á að afla sjer fræðslu í þessum efnum, nema á námsskeiðum Fiskifjelagsins. Nú hafa þau námsskeið lagst niður, vegna þess, að hæfir menn hafa ekki verið fáanlegir til að veita þeim forstöðu, og ef til vill líka af því, að húsrúm, áhöld og fleira hefir vantað. Það liggur því beint við, að slík stofnun verði sett á stofn á landssjóðs kostnað, og það sem fyrst. Ef ekkert er að gert, getur af því hlotist mikið fjárhagslegt tjón og mörg mannslíf verið í hættu. Það er ekki svo að skilja, að öll slys stafi af þekkingarleysi þeirra, sem vjelunum stjórna, en slíkt getur þó átt sjer stað. Stórfje hefir farið forgörðum vegna þess, að skip hafa orðið að hætta í vertíðarbyrjun vegna vjelbilunar, því að færir menn hafa ekki gætt vjelanna. Það ætti að vera meðmæli með frv., að það er gert í samráði við forstöðumann vjelskólans, og vjelfræðingur Fiskifjelagsins hefir einnig um það fjallað og telur nauðsynlegt, að það nái fram að ganga.

Mjer væri kærast, að málið fengi að ganga nefndarlaust, því annars er tvísýnt, hvort það fær afgreiðslu á þessu þingi; tel óhætt, þótt það gangi áfram nefndarlaust, og vænti þess, að það fái góðar viðtökur.