26.02.1920
Efri deild: 12. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

31. mál, lögreglusamþyktir

Björn Kristjánsson:

Þetta mál hefir, eins og menn vita, gengið viðstöðulaust gegnum Nd., nema hvað allsherjarnefnd breytti lítillega einu atriði. Jeg hygg því ekki, að nokkuð geti verið athugavert við frv.

Markmið frv. er að veita heimild til þess að gera lögreglusamþyktir utan kaupstaða í kauptúnum þótt sýslumaður búi þar ekki, og er að því leyti rýmkun á gildandi lögum, en þar sje þá umboðsmaður sýslumanns eða hreppstjóri.

Frv. er flutt að ósk sveitarstjórnarinnar í Keflavík, sem er allstórt kauptún, þótt ekki hafi það kaupstaðarrjettindi. Umboðsmaður sýslumanns er á staðnum, enda fljótgert fyrir hann að bregða sjer þangað, ef eitthvað alvarlegt ber að höndum, síðan hinn ágæti vegur kom á milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar.

En með því að heimildar þessarar getur verið eins þörf annarsstaðar, þá er ætlast til, að hún sje almenn. Að öðru leyti er heimild þessi algerlega hættulaus, með því að bæði sýslumaður og stjórnarráð veita samþykkið.