25.02.1920
Neðri deild: 13. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

44. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Sveinn Björnsson:

Þetta mál fer nokkuð hröðum skrefum, eða flugvjelin fer nokkuð hratt yfir, svo að það er vont að nema staðar við einstök atriði í frv. Jeg vil ekki hindra það á nokkurn hátt, það þetta frv. að aðalefni geti farið svo fljótt í gegnum þingið, sem hægt er.

Í síðustu grein frv. er talað um að nema úr gildi lög nr. 56, 30. júlí 1909. Það er heimild um að veita skipum, sem skrásett eru hjer á landi, undanþágu frá að hafa öllum veiðarfærum svo fyrir komið og frá gengið, þegar þau eru í landhelgi, sem annars er krafist. Það er samvinnunefnd sjávarútvegsnefnda, sem leggur til, að þetta ákvæði sje felt í burtu, án þess eiginlega að gera nokkra sjerstaka grein fyrir því. Jeg hefi ekki heyrt ástæðurar fyrir því, hvers vegna þetta þurfi að fella í burtu, en það eru lítils háttar fríðindi fyrir innlenda menn, og jeg kann ekki við að samþykkja þetta orðalaust, áður en jeg hefi fengið að vita, hvers vegna á að gera það. Jeg leyfi mjer að beiðast þess, að nefndin skýrir þetta, og ef hún gerir það ekki, þá neyðist jeg til að koma fram með brtt.