25.02.1920
Neðri deild: 13. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

44. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Sveinn Björnsson:

Jeg skildi svo hv. frsm. (E. Þ.), að þetta atriði væri gagnslítið í lögunum, eða að minsta kosti að það væri eins heppilegt að hafa þau svo, sem hann gerði ráð fyrir. (E. Þ.: Já, hvað nytsemina snertir). Já, um nytsemina er það að segja, að jeg hygg, að fyrir tæpum 10 árum hefði naumast verið brotist í að setja þessi lög, nema því að eins, að það hafi þótt rjettara að hafa þau. Jeg hygg t. d., að það sje mikið hagræði fyrir íslenska botnvörpunga að geta sparað sjer alla þá vinnu, sem í þessu liggur.

Að þetta geti gert mönnum hægra fyrir að brjóta landhelgislögin, er í sjálfu sjer ekki næg ástæða; í fyrsta lagi má gera ráð fyrir, að betra eftirlit verði með þessum botnvörpuveiðum hjer eftir en hingað til, og í öðru lagi vil jeg segja það, að ef ekki er hægt að líta eftir því á fullnægjandi hátt, þá er jeg á þeirri skoðun, að minni ástæða sje til að fást um, þó innlendir menn skjótist undan lögunum en útlendir; síður en svo, að jeg sje að mæla með því, að menn brjóti lögin, en mjer finst, að ríkari ástæða þurfi að vera fyrir hendi, til þess að menn nemi úr lögunum þessi útlátalitlu fríðindi.