27.02.1920
Efri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

44. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. (Karl Einarsson):

Við þessa umr. skal jeg ekki fara langt út í málið.

Jeg skal geta þess, að sektarákvæðin eru hækkuð, með því að sektirnar þóttu mikils til of lágar, sjerstaklega eftir að peningar hafa fallið svo í verði, sem kunnugt er. Auðvitað má þrátta um það, hvort nefndirnar hafi hitt það rjetta eða ekki. Það stóð til á þingi 1914 að hækka sektirnar. En þá skall á styrjöldin mikla, svo að ekkert varð úr þessu, enda hefir naumast þurft á þessu að halda. Styrjaldarárin hefir strandgæsla verið sama sem engin, og að því, er mjer er kunnugt, að eins 1 brot, sem uppvíst hefir orðið á þessum árum, sem sje í Vestmannaeyjum 1915.

Það er nauðsyn að hraða málinu svo, að það verði afgreitt í dag, og vil jeg því óska, að það gangi fram nefndarlaust, enda flytja það sjávarútvegsnefndir beggja deilda.