27.02.1920
Efri deild: 15. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

44. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. (Karl Einarsson):

Jeg gat þess við fyrstu umr. málsins, að jeg mundi gera grein fyrir breytingunum í þessu frv.

1. breytingin er í 2. gr. Þar fellur burtu ákvæðið um undanþágu íslenskra botnvörpunga til að hafa veiðarfæri óbúlkuð í landhelgi.

Hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) taldi það eina af ástæðunum fyrir því, að þetta gæti ekki átt sjer stað, að Alþingi 1909 hefði fundið sjer skylt að gera þessa ívilnun. Hvað vakað hefir fyrir þinginu 1909, veit jeg ekki. En þetta ákvæði hefir reynst mjög illa. Það hefir oft komið fyrir, að varðskipið hefir hitt íslensk og útlend skip með veiðarfæri óbúlkuð á landhelgissvæðinu, og hafi þau verið spurð, hverju það sætti, hafa þau venjulega svarað, að þau hafi verið við veiðar skamt frá, en utan landhelgislínunnar. Það er því oft ilt að gera sektirnar gildandi á hendur þeim, þó að bersýnilega sje um brot að ræða.

Hvað því viðvíkur, að vinnutími lengist svo mjög við að búlka veiðarfærin, þá er það að mestu leyti gert með vjelum.

Þetta ár er fyrsta árið eftir ófriðinn, sem búast má við að botnvörpungaflotinn fari aftur að vaxa hjer við land. Hann mun nú þegar orðinn eins mikill og hann var fyrir stríðið mestur, og á þó fyrir sjer að aukast. Það er því full ástæða til að taka stranglega í taumana og nauðsynlegt, að málið gangi fram á þessu þingi. (S. J.: Það er samt ekki tekið fram, hve nær lögin eigi að öðlast gildi). Já, mikið rjett. En þá ganga þau sjálfsagt í gildi á venjulegum tíma, sem sje 12 vikum eftir birtingu í B-deild Stj.tíð.

Um hækkun sektanna hefir sumum fundist, sem farið væri fullfrekt í sakirnar. En þó er sannleikurinn sá, að þegar tillit er tekið til hins mikla verðfalls peninganna, er þessi hækkun ekki eins mikil og hún sýnist vera. Fyrir fyrsta aðalbrot eru sektirnar fimmfaldaðar, en í 4. gr., sem einkum er stíluð upp á innlenda menn, sem grunaðir eru um liðsinni við útlendar veiðar, er hækkunin úr 200–2000 upp í 500–5000 kr.

Annars skal jeg játa, að jeg samdi ekki þetta frv. og var ekki viðstaddur þegar það var fyrst lagt fram, en finst þó ástæðulaust að fara að þvæla því milli deilda fyrir einhverjar smábreytingar.